Erlent

Eiginkona árásarmannsins segir hann hafa heyrt raddir

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar standa vörð við höfuðstöðvar lögreglunnar í París.
Lögregluþjónar standa vörð við höfuðstöðvar lögreglunnar í París. AP/Michel Euler
Eiginkona manns sem myrti fjóra samstarfsmenn sína í höfuðstöðvum lögreglunnar í París í gær, segir hann hafa átt við geðræn vandamál að stríða kvöldið fyrir árásina. Hún hafi átt erfitt með að skilja hann og hann hafi heyrt raddir. Árásarmaðurinn, Mickaël Harpon, var skotinn til bana af lögregluþjóni. Hann var 45 ára gamall og hafði starfað hjá lögreglunni í sextán ár.

Eiginkona Harpon er í haldi lögreglu en hefur ekki verið ákærð. Unnið er að því að rannsaka hvert tilefni árásarinnar var. Hún segir hann hafa deilt við yfirmenn sína og samkvæmt BBC, sem vitnar í franska fjölmiðla, hafa starfsmenn verkalýðsfélags lögregluþjóna sömuleiðis gefið í skyn að Harpon hafi staðið í deilum við yfirmenn sína.

Um klukkan eitt í gær, að staðartíma, er Harpon sagður hafa gengið inn í höfuðstöðvar lögreglunnar í París. Hann mun hafa gengið beint inn á skrifstofu sína og ráðist á samstarfsmenn sína með eldhúshníf. Hann stakk þrjá aðila í tveimur skrifstofum og tvær konur fram á stigapalli áður en hann var skotinn til bana af lögregluþjóni. Þrír menn og ein kona dóu.

Ein kona til viðbótar særðist alvarlega.

Enn sem komið er er ekki talið að um hryðjuverk hafi verið að ræða.

Harpon tók upp íslamstrú fyrir einu og hálfu ári síðan og var víst hættur að tala við konur á skrifstofunni. Búið er að leita á heimili Harpon og fundust engar vísbendingar um að hann hefði orðið fyrir einhverjum áhrifum öfgasamtaka. Verið er að skoða tölvur hans og síma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×