Körfubolti

Óvíst hvenær Björn snýr aftur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Björn lætur rigna í leik með KR á síðustu leiktíð
Björn lætur rigna í leik með KR á síðustu leiktíð Vísir/Bára
Björn Kristjánsson, leikmaður sexfaldra Íslandsmeistara KR, er enn frá vegna meiðsla og er óvíst hvenær hann snýr aftur. 

Björn hefur ekki enn leikið fyrir KR á þessari leiktíð og þó það hafi ekki enn haft áhrif á KR þar sem liðið hefur unnið alla þrjá leiki sína til þessa þá er ljóst að þegar líða fer á tímabilið þarf liðið á öllum sínum leikmönnum að halda til að landa þeim sjöunda í röð. 

Þeir Jón Arnór Stefánsson og Helgi Már Magnússon eru ekkert að yngjast og það var einmitt þá sem Björn steig upp á síðustu leiktíð en hann spilaði stóran þátt í því að KR landaði sínum sjötta Íslandsmeistaratitli í röð síðasta vor. Hann átti stórleik gegn Þór Þorlákshöfn þegar liðið var með bakið upp við vegg.

Þá gerði hann 14 stig þegar KR knúði fram hreinan úrslitaleik við ÍR um Íslandsmeistaratitilinn, sem KR vann svo örugglega á endanum. 



Björn glímir við meiðsli á mjöðm sem eru orðin það slæm að þau halda honum frá keppni. Læknar telja að það sé mjaðmakúlan sem valdi sársaukanum. 

„Þetta kom fyrst upp þegar ég var í Njarðvík,“ sagði Björn í viðtali við íþróttadeild Vísis. 

„Ég er búinn að vera glíma við þetta síðustu tvö ár í KR. Þegar ég hitna þá minnkar sársaukinn og ég hef alltaf geta spilað þó svo að sársaukinn sé það mikill á kvöldin að ég eigi oft erfitt með svefn,“ sagði Björn ennfremur. 

Hann fór í sprautu til að vinna bug á meiðslunum og telur sig verða betri með hverjum deginum sem líður. 

„Hún virðist vera hafa tilætluð áhrif og ég er að koma mér almennilega í gang, vonandi eru bara nokkrar vikur í viðbót þangað til ég kemst aftur út á gólf,“ sagði Björn að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×