Umfjöllun og viðtöl: Þór Þorl. - Þór Ak. 85-81 | Æsispennandi Þórsslagur í Þorlákshöfn

Ísak Hallmundarson skrifar
Vísir/Daníel
Þór frá Þorlákshöfn tók á móti Þór frá Akureyri í spennutrylli í Dominos-deild karla í kvöld.

Hvorugt liðið hafði náð í sigur í fyrstu tveimur leikjum mótsins.

Heimamenn í Þorlákshöfn byrjuðu betur og leiddu eftir fyrsta leikhluta 28-19. Emil Karel Einarsson fyrirliði Þórs Þorlákshafnar setti niður þriggja stiga flautukörfu fyrir aftan miðju í lok 1.leikhluta við mikinn fögnuð áhorfenda.

Heimamenn byrjuðu 2.leikhluta af meiri krafti og voru komnir 15 stigum yfir þegar um þrjár mínútur voru liðnar af leikhlutanum.

Akureyringar svöruðu heldur betur fyrir sig og náðu 19 stiga sveiflu sér í hag í sama leikhluta og komust þar með fjórum stigum yfir 45-41 en heimamenn svöruðu og náðu að jafna í 45-45 rétt fyrir hálfleik. Staðan jöfn í hálfleik í æsispennandi leik. Hansel Suarez fór mikinn í liði Akureyringa og var kominn með 24 stig strax í hálfleik á meðan Emil fyrirliði og Vincent Bailey leiddu stigaskor heimamanna í fyrri hálfleiknum með 30 stig samtals.

Spennan varð ekkert minni í seinni hálfleik. Gestirnir frá Akureyri áttu góðan sprett í upphafi 3.leikhluta og komust mest 7 stigum yfir, 62-55. Heimamenn náðu aðeins að klóra í bakkann í lok leikhlutans og var staðan 64-61 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann, gestunum í vil.

Liðin skiptust á að taka forystu í upphafi 4.leikhlutans, Hansel Sanchez setti niður erfiðan þrist fyrir gestina og kom þeim einu stigi yfir í 71-70 en þá svöruðu heimamenn með þrist og tóku tveggja stiga forystu þegar um 5 mínútur voru eftir af leiknum.

Lokamínútan var æsispennandi, heimamenn leiddu 80-77 en Ragnar Örn Bragason fékk þá dæmda á sig óíþróttamannslega villu sem þýddi að Akureyringar fengu tvö vítaskot og boltann eftir það og gátu því náð forystu ef allt færi á besta veg fyrir þá. Sanchez setti niður bæði vítin en Akureyringar töpuðu síðan boltanum. Þegar 17 sekúndur voru eftir og munurinn eitt stig tók Lárus Jónsson þjálfari Þórs Akureyri leikhlé og gátu þeir náð forystunni. Hansel Sanchez tapaði þá boltanum og heimamenn fengu tvö vítaskot. Marko Bokavic setti bæði niður og leiknum lauk síðan með 4 stiga sigri heimamanna, 85-81.

Emil: Vantar drápseðlið til að klára leiki

Emil Karel Einarsson fyrirliði Þórs Þorlákshafnar var ánægður með að fyrsti sigur liðsins á tímabilinu sé kominn í hús. Hann segir liðið þurfa að hafa fyrir hverjum einasta sigri.

„Við erum bara á þeim stað að við þurfum að berjast fyrir hverjum einasta punkt í þessari deild og komum inn í alla leiki með það hugarfar að þetta sé slagur upp á hvern punkt.“

Lið hans var 15 stigum yfir í byrjun 2.leikhluta en gestirnir náðu að koma til baka og var staðan jöfn í hálfleik.

„Í öðrum leikhluta gerist það sama og á móti Val. Við erum komnir með gott forskot og þá vantar í okkur drápseðlið til að klára svona leiki. Við látum boltann ekki ganga og erum að leita að einhverjum einum möguleika sem er ekki í boði og það drepur allt flæðið sóknarmegin.“

„Við getum aldrei mætt í leiki af einhverjum hálfhug eða halda að við séum að fara að taka eitthvað létt, við þurfum að berjast gjörsamlega fyrir öllu og taka þessi stig.“

Hansel: Gefur okkur von um að geta unnið hvaða lið sem er

Hansel Sanchez bakvörður Akureyrarliðsins sér marga jákvæða punkta í frammistöðu síns liðs þrátt fyrir svekkjandi tap. Hansel var stigahæstur í leiknum með 34 stig.

„Þetta er erfið leið til að tapa, þetta var svo nálægt því. Á heildina litið tel ég að við séum að verða betri, þetta var þriðji leikurinn og sá tæpasti til þessa.“ segir Hansel.

„Við töpuðum en þetta gefur okkur samt sem áður von um að við getum unnið hvaða lið sem er. Við þurfum bara að halda áfram og reyna að vinna næsta leik.“

Hann segist hlakka til næsta leiks:

„Ég held að við höfum mætt með meiri ákafa í þennan leik, bæði sóknarlega og varnarlega. Við vorum líka að hitta betur núna en í síðasta leik. Ég hlakka til næsta leiks.“

Friðrik: Gaman að vinna með hópnum og fólkinu í Þorlákshöfn

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Þórs Þorlákshafnar var sáttur með sigur sinna manna eftir erfiðan leik:

„Það er öllu betra að vinna og maður er í þessu til að ná úrslitum og árangri. Þetta var erfiður leikur, mér fannst við hafa þetta í góðum höndum í fyrri hálfleik en síðan kom einhver kafli þar sem við misstum dampinn og fórum bara niður á slakt plan. Þórsarar (frá Akureyri) gerðu hinsvegar mjög vel og mér fannst þeir miklu betri og skipulagðari en ég hafði séð þá undanfarið, svo var hann alveg á eldi bakvörðurinn hjá þeim (Sanchez) en við náðum aðeins að bremsa hann af í seinni hálfleik og stjórna leiknum betur í gegnum vörnina.“

Friðrik segir sína menn of mikið hafa verið að bregðast við aðgerðum andstæðinganna.

„Við vorum frekar að ,,re-acta“ við það sem þeir voru að gera en ekki öfugt og í kjölfarið var sóknarleikurinn ekki nógu flæðandi, við þurfum að vinna í því einhvernveginn. Þannig það er hellingur sem við þurfum að laga.“

Hann segir ágæta uppá sálfræðihliðina að taka svona jafna leiki:

„Það er oft ágætt fyrir sálarlífið að taka svona erfiða sigra sem þarf að hafa mikið fyrir og það getur gert mikið fyrir hópinn. Við þurfum að sanna okkur í hverjum einasta leik.“

Þá segir Friðrik það vera mjög skemmtilegt að vinna með þann hóp sem hann hefur:

„Það er mjög gaman að vinna með þessum hópi og fólkinu hér í Þorlákshöfn. Ég hef mikla trú á hópnum. Það eru mjög skemmtilegir og litríkir karakterar hér, það er ein af ástæðunum fyrir því að ég hafði mikinn áhuga á að koma hingað. Um 70% leikmanna eru heimamenn og menn leggja mikið á sig fyrir bæjarfélagið, þetta skiptir bæjarfélagið miklu máli og stuðningurinn er mikill. Áhorfendur eru frábærir og hafa verið það í gegnum árin.“

Lárus: Strákarnir sýndu mikinn karakter

Lárus Jónsson þjálfari Þórs frá Akureyri var svekktur að hafa ekki náð að klára leikinn með sigri en var þó ánægður með framlag sinna manna.

„Það var gríðarlega svekkjandi að klára ekki leikinn, mér fannst við vera sterkari eftir fyrsta leikhlutann. Við lentum svoldið undir en mér fannst strákarnir sýna mikinn karakter að koma til baka, sérstaklega eftir stórt tap í síðasta leik. Í staðinn fyrir að gefast upp þá komum við til baka og vorum eiginlega með stjórn á leiknum þangað til kannski um miðbik 4.leikhluta.“

„Við getum tvímælalaust byggt á þessari frammistöðu í næstu leikjum, ég er mjög stoltur af strákunum. Við spiluðum mjög góða vörn og þeir lögðu sig alla fram og spiluðu án þess að hika.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira