Erlent

Íranar segjast hafa handtekið blaðamann í útlegð

Kjartan Kjartansson skrifar
Æjatolla Khamenei með yfirmönnum byltingarvarðarðins. Myndin er úr safni.
Æjatolla Khamenei með yfirmönnum byltingarvarðarðins. Myndin er úr safni. Vísir/EPA
Byltingarvörður Írans fullyrðir að íranskur blaðamaður sem hefur verið í útlegð í París hafi verið handtekinn fyrir að nota samskiptaforrit til að „ala á andófi“. Blaðamanninum á að hafa verið „beint“ til Írans í „flókinni leyniþjónustuaðgerð“.

Ruhollah Zam er 46 ára gamall blaðamaður sem hefur rekið fréttarásina Amadnews á samskiptamiðlinum Telegram. Hún hefur notið vinsælda hjá stjórnarandstæðingum sem stjórnvöld í Teheran saka um að hafa hvatt til umfangsmikilla mótmæla í landinu frá 2017 til 2018. AP-fréttastofan segir að Amadnews hafi birt myndbönd og upplýsingar um íranska embættismenn sem hafi verið vandræðaleg fyrir stjórnvöld.

Breska ríkisútvarpið BBC segir ekki ljóst hvar eða hvernig Zam var tekinn höndum. Tilkynnt var um handtöku hans í íranska ríkissjónvarpinu og henni lýst sem sigri á vestrænum leyniþjónustustofnunum.

Fullyrt er að byltingarvörðurinn hafi notað „nútímalegar leyniþjónustuaðferðir og skapandi leiðir“ til að „blekkja“ erlendar leyniþjónustustofnanir og hafa hendur í hári Zam. Hann var sakaður um að stýra „sálfræðihernaði“ óvina ríkisins.

Zam var upphaflega handtekinn árið 2009 í kjölfar deilna um úrslit forsetakosninga. Hann fór skömmu síðar í útlegð og settist að í Frakklandi. Írönsk stjórnvöld hafa sakað hann um samstarf við erlendar leyniþjónustur en hann hefur neitað því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×