Enski boltinn

Liverpool búið með mun erfiðari leiki en Manchester City

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mörk frá Mohamed Salah og Jordan Henderson tryggðu Liverpool endurkomusigur á móti Tottenham um síðustu helgi.
Mörk frá Mohamed Salah og Jordan Henderson tryggðu Liverpool endurkomusigur á móti Tottenham um síðustu helgi. Getty/Jan Kruger
Það er ekki aðeins sex stiga forysta á toppi ensku úrvalsdeildarinnar sem gefur ástæðu til bjartsýni hjá stuðningsmönnum Liverpool. Með því að skoða leikjadagskrá Liverpool og Manchester City til þessa kemur ýmislegt forvitnilegt í ljós. 

Eftir endurkomusigur á móti Tottenham á sunnudaginn er Liverpool áfram tveimur sigurleikjum á undan Englandsmeisturum Manchester City og þrátt fyrir að lítið sé búið af tímabilinu þá er Liverpool líklegt til að geta endað 30 ára bið eftir Englandsmeistaratitlinum á þessari leiktíð.

Sex stiga forskot er gott veganesti í framhaldið en þá er líka gott fyrir liðið að Liverpool er þegar búið að spila við marga sterka mótherja á þessum fyrstu mánuðum tímabilsins.

Það er ekki alveg hægt að segja það sama um Pep Guardiola og lærisveina hans í Manchester City sem hafa til þessa næstum því sloppið alveg við að mæta stóru liðum deildarinnar.





Liverpool er þegar búið að spila við Arsenal, Chelsea, Manchester United, Totteham og sjóðandi heitt lið Leicester City en Manchester City hefur aðeins mætt Tottenham af liðunum úr hópi þeirra sex stóru.

Fyrir utan þennan eina leik á móti Tottenham þá er hæsta liðið í töflunni sem Manchester City hefur mætt, lið Crystal Palace. Palace er eins og er í sjötta sæti deildarinnar.

Eins hafa Liverpool menn klárað fleiri ferðalög í Meistaradeildinni. Liverpool er búið að ferðast í tvo útileiki þar af annan þeirra á móti Napoli. Liverpool hefur ferðast til Tyrklands (Ofurbikar UEFA), Ítalíu og Belgíu á tímabilinu en City hefur aðeins einu sinni farið út fyrir England.

Þegar litið er á mótherja og styrkleika þeirra þá hefur Liverpool mætt átta liðum úr hópi 21 bestu liða Evrópu samkvæmt Club ELO Index en City hefur aðeins mætt einu liði frá 1 til 21 á listanum.

Samkvæmt þessu ætti Liverpool að eiga eftir auðveldari leiki en fótboltinn er nú þannig að enginn veit hvernig þetta allt þróast. Það sem er hins vegar ljóst að sex stiga forskot Liverpool virkar aðeins stærra í þessum samanburði.

Mótherjar Liverpool í ensku úrvalsdeildinni 2019-20 og staða þeirra í töflunni:

Norwich City - 19. sæti   

Southampton - 18. sæti

Arsenal    - 5. sæti

Burnley - 13. sæti

Newcastle United - 17. sæti   

Chelsea - 4. sæti

Sheffield United - 8. sæti   

Leicester City - 3. sæti

Manchester United - 7. sæti

Tottenham 11. sæti

Mótherjar Manchester City í ensku úrvalsdeildinni 2019-20 og staða þeirra í töflunni:

West Ham  - 10. sæti

Tottenham  - 11. sæti

Bournemouth - 9. sæti

Brighton & Hove Albion - 14. sæti

Norwich     - 19. sæti

Watford - 20. sæti

Everton     - 16. sæti

Wolves - 12. sæti

Crystal Palace     - 6. sæti

Aston Villa - 15. sæti




Fleiri fréttir

Sjá meira


×