Sondland hefur verið í miðpunkti rannsóknar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings á þrýstingsherferð Trump og bandamanna hans til að fá úkraínsk stjórnvöld til að rannsaka Joe Biden, fyrrverandi varaforseta og mögulegan mótframbjóðanda Trump í forsetakosningum á næsta ári.
Ásamt Rudy Giuliani, persónulegum lögmanni Trump, og Kurt Volker, þáverandi sendifulltrúa Bandaríkjanna, kom Sondland þeim skilaboðum til nýrrar ríkisstjórnar Úkraínu að hún þyrfti að hefja rannsókn til að fá fund með Trump sem hún sóttist eftir.
Trump hefur ítrekað harðneitað því að um hvers konar „kaup kaups“ hafi verið að ræða þar sem Úkraínumenn fengju eitthvað frá Bandaríkjastjórn í skiptum fyrir persónulegan pólitískan greiða í aðdraganda forsetakosninga á næsta ár.
Wall Street Journal hefur nú eftir lögmanni Sondland að sendiherrann hafi sagt þingnefndunum sem rannsaka Trump í þarsíðustu viku að tilraunir forsetans til að fá úkraínsk stjórnvöld til að rannsaka Biden hafi verið jafngildi „kaupa kaups“.
Vilja fá Sondland aftur fyrir þingnefndirnar
Samkvæmt skilningi Sondland hafi Trump sett það sem skilyrði fyrir því að funda með Volodomír Zelenskíj, forseta Úkraínu, að hann lýsti því yfir opinberlega að rannsókn á Biden og stoðlausri samsæriskenningu um tölvupóstþjón Demókrataflokksins væri hafin.Fundur með forseta Bandaríkjanna var stjórnvöldum í Úkraínu sérstaklega mikilvægur þar sem þau reiða sig á stuðning Bandaríkjastjórnar í fimm ára löngu stríði gegn uppreisnarmönnum sem eru hliðhollir Rússum í austanverðu landinu.
Trump hélt einnig eftir tæplega 400 milljóna dollara hernaðaraðstoð til Úkraínu í sumar. Aðstoðin var ekki afgreidd fyrr en í september þegar bandarískir þingmenn voru farnir að kanna hvað tefði afgreiðslu hennar.
Sondland bar vitni um að hann vissi ekki til þess að sú ákvörðun hefði verið tekin til að þrýsta á Zelenskíj og ríkisstjórn hans að rannsaka Biden. William Taylor, æðsti sendifulltrúi Bandaríkjanna í Úkraínu, bar hins vegar vitni fyrir þingnefndunum á eftir Sondland og sagði Sondland hafa sagt sér að hernaðaraðstoðin væri einnig undir í þrýstingsherferð Trump gegn Úkraínu.
Einhverjir þingmenn eru sagðir vilja fá Sondland til að bera aftur vitni. Lögmaður hans segist gera ráð fyrir að sendiherrann yrði við því.