Umfjöllun og viðtöl: Þór Ak. 75-85 ÍR | Þórsarar enn án sigurs

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson. Vísir/Vilhelm
ÍR-ingar voru í heimsókn hjá Þórsurum í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld í mikilvægum leik í Dominos deild karla í körfubolta.



Þórsarar byrjuðu leikinn af miklum krafti og voru raunar að spila mun betri körfubolta stærstan hluta fyrri hálfleiks. Staðan eftir fyrsta leikhluta 21-13 fyrir heimamönnum.

Í öðrum leikhluta urðu heimamenn fyrir áfalli þegar Mantas Virbalas fékk dæmda á sig villu í þriðja sinn í leiknum og fékk hann sér sæti á varamannabekknum út hálfleikinn í kjölfarið. Í öðrum leikhluta meiddist Sigurður Gunnar Þorsteinsson á hné og lék hann ekki meira í leiknum.

Þórsarar leiddu með níu stigum þegar sjö mínútur voru liðnar af öðrum leikhluta, 36-27, en í hálfleik var staðan orðin 39-44, ÍR í vil! Algjörlega ótrúlegur viðsnúningur sem ÍR-ingar getu að nær öllu leyti þakkað Evan Singletary sem skoraði 25 stig í fyrri hálfleiknum, auk þess að gefa 4 stoðsendingar og taka 8 fráköst.

ÍR-ingar héldu frumkvæðinu í þriðja leikhluta þó heimamenn hafi gert sín áhlaup. Undir lok þriðja leikhluta dró hins vegar til tíðinda á afdrifaríkan hátt. Daði Berg Grétarsson, fyrirliði ÍR, réðist þá fremur harkalega að Mantas eftir að sá síðarnefndi hafði tekið frákast undir körfu Þórs. Í kjölfarið brást Mantas ókvæða við og voru báðir leikmenn sendir í sturtu.

Brotthvarf þeirra hafði vægast sagt mismikil áhrif á leik liðanna þar sem Þórsarar treysta mikið á Mantas á báðum endum vallarins, sér í lagi eftir að ÍR-ingar höfðu misst sinn stóra mann í meiðsli. Daði Berg hins vegar í aukahlutverki hjá ÍR.

ÍR-ingar sigldu sigrinum nokkuð þægilega heim í fjórða leikhluta þó heimamenn hafi gert áhlaup um miðjan fjórðunginn en þeir náðu þó aldrei að koma muninum niður í minna en sex stig. Lokatölur 75-85 og annar sigur ÍR í röð staðreynd.

Afhverju vann ÍR?

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, telur brottvísun Mantas hafa gert útslagið. 

Það er í raun erfitt að festa fingur á hvað það var sem skildi liðin að. Leikurinn var kaflaskiptur þar sem heimamenn voru í raun betri allan fyrri hálfleikinn en eru samt undir í hálfleik eftir ótrúlegan tveggja mínútna kafla í lok fyrri hálfleiks.

Eftir að ÍR-ingar náðu forystunni létu þeir hana aldrei af hendi og sigldu sigrinum heim.

Bestu menn vallarins

Evan Singletary átti ótrúlega frammistöðu í fyrri hálfleik þar sem hann gerði 25 stig auk þess að gefa 4 stoðsendingar og taka 8 fráköst. Var upphaf og endir allra sókna ÍR-inga. Í síðari hálfleik hægðist á honum en þá steig Collin Pryor upp með mikilvægar körfur.

Í liði heimamanna átti Pablo Hernandez góða spretti og Mantas Virbalas var illviðráðanlegur í þann stutta tíma sem hann var inn á.

Hvað gekk illa?

Daði Berg Grétarsson. Átti mjög lélega innkomu í fyrri hálfleik þar sem hann klúðraði nokkrum sóknum á skömmum tíma. Lætur svo reka sig útaf í síðari hálfleik fyrir framkomu sem sæmir ekki fyrirliða.

Hvað er næst?

Þórsarar verða enn í leit að sínum fyrsta sigri þegar þeir heimsækja Tindastól í næstu umferð í nágrannaslag. Á sama tíma fara ÍR-ingar væntanlega fullir sjálfstrausts í stórleik gegn KR, sem hirti af þeim Íslandsmeistaratitil á síðustu leiktíð.

Lárus: Þegar einhver fellir þig, sparkar í þig liggjandi og hótar svo að kýla þig. Hvað gerir þú?
Lárus JónssonÞór TV / thorsport.is
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs, var hundfúll eftir að hafa séð sína menn tapa með tíu stiga mun fyrir ÍR í 4.umferð Dominos deildar karla í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld.

Lárus telur að ljótt atvik sem gerðist seint í þriðja leikhluta hafi farið með leikinn fyrir Þórsara.

Við byrjuðum vel en svo skaut Evan (Singletary) þeim inn í leikinn í öðrum leikhluta. Hann skoraði 25 stig í fyrri hálfleik. Svo voru ÍR-ingar með fólskubragð sem fer með leikinn fyrir okkur. Það var greinilegt að Daði var ekki nálægt frákastinu,“ segir Lárus.

Þarna ræðir Lárus um Daða Berg Grétarsson, sem er fyrirliði ÍR, en honum var vikið úr húsi fyrir að ráðast á Mantas Virbalas, miðherja Þórs, eftir að sá síðarnefndi tók frákast. Hins vegar var Mantas sömuleiðis sendur úr húsi fyrir viðbrögð sín við árás Daða.

„Hann byrjar á að fella Mantas og svo sparkar Daði í Mantas þegar hann liggur. Auðvitað bregðast menn við. Við hefðum unnið þennan leik ef Mantas hefði klárað leikinn,“ segir Lárus.

Mantas Virbalas er lykilmaður í leik Þórs á meðan Daði er í aukahlutverki í liði ÍR og vill Lárus meina að þetta hafi verið þaulskipulögð áætlun hjá Daða. Lárus ræddi lengi við dómaratríóið eftir leik og segir þá hafa verið sammála því en þeir hafi engu að síður þurft að refsa Mantas fyrir að bregðast ókvæða við.

„Þetta var úthugsað hjá Daða og ég reikna með að hann fái langt bann. Dómararnir voru sammála því að þetta hafi líklega verið útreiknað hjá Daða en þeir þurftu að bregðast við útaf því að Mantas fór í Daða eftir atvikið. Mér finnst að dómararnir hefðu átt að vera fljótari að skerast í leikinn og stoppa þetta. Þeir áttu að bregðast við þegar þeir sjá Daða ráðast á Mantas en þetta gerist auðvitað á einni sekúndu,“ segir Lárus.

Lárus hafði ekki náð að ræða við Mantas þegar hann ræddi við blaðamann í leikslok. 

„Honum var náttúrulega vikið út úr húsi svo ég náði ekkert að tala við hann. Þegar einhver fellir þig, sparkar í þig liggjandi og hótar svo að kýla þig. Hvað gerir þú? Eðlilega reynir hann bara að verja sig. Þetta er fólskuleg áras,“ sagði Lárus.

Burt séð frá þessu atviki var hann sáttur með margt í leik síns liðs sem er engu að síður stigalaust eftir fjóra leiki.

„Liðið er aðeins að bæta sig og svo held ég að deildin sé bara aðeins jafnari en menn halda. Við vorum næstum búnir að vinna Þór Þ. og þeir hefðu getað unnið KR í gær. Við getum unnið öll lið í þessari deild. Við bjuggumst við því að það tæki tíma að aðlagast deildinni en mér finnst menn vera að bæta sig,“ segir Lárus.

Borche: Siggi þarf að komast í betra form
Borche Ilievski
„Þetta var erfiður leikur. Við vorum undir mikilli pressu, sérstaklega andlega. Ég varaði strákana við því að vanmeta Þór því þeir sýndu það í Þorlákshöfn í síðustu umferð að þeir geta verið hættulegir. Við þurftum að taka þá alvarlega og þeir eru gott lið. Þeir eiga eftir að koma einhverjum á óvart,“ sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR í leikslok.

Þetta var annar sigur ÍR í röð eftir að liðið tapaði fyrstu tveimur leikjum sínum í mótinu. 

„Við erum enn að leita að okkar einkennum. Við ættum að einbeita okkur meira að því að skapa okkar lið. Ég reikna með að við verðum áfram óstöðugir í okkar leik í næstu leikjum en við munum ná upp stöðugleika og jafnvægi í okkar lið þegar líður á tímabilið,“ segir Borche.

Borche er sannfærður um að koma Sigurðar til ÍR muni reynast liðinu mikilvæg.

„Það er mjög mikilvægt fyrir okkur. Hann kemur með mikla reynslu í okkar lið og marga aðra eiginleika sem við þurfum. En eins og sást í kvöld er hann frekar stífur. Hann byrjaði leikinn ekki vel og hann þarf að komast í betra form. Hann þarf smá tíma, bara alveg eins og í fyrra,“ segir Borche.

Að lokum var hann spurður út í atvikið með Daða og Mantas.

„Ég mun klárlega ræða þetta við Daða. Ég sá þetta ekki nógu vel til að geta dæmt um þetta strax en ég er ekki ánægður með þetta. Íþróttir eiga að sameina fólk og við eigum að forðast svona atvik. Ef Daði er sekur mun ég þurfa að ræða alvarlega við hann,“ sagði Borche ákveðinn.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira