Enski boltinn

„Ef Liverpool vinnur Man. City í nóvember þá er þetta komið hjá þeim“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Liverpool fagna marki í gærkvöldi.
Leikmenn Liverpool fagna marki í gærkvöldi. Getty/Andrew Powell
Það eru bara níu umferðir búnar að ensku úrvalsdeildinni en knattspyrnuspekingur Sky Sports var samt alveg klár í að henda út risastórri yfirlýsingu.

Liverpool er með sex stiga forystu á Mancheter City á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en tapaði fyrstu stigum sínum í leik númer níu þegar Liverpool menn björguðu stigi á móti Manchester United á Old Trafford um síðustu helgi.

Paul Merson var mættur í settið hjá Sky Sports í gærkvöldi þar sem farið var yfir Liverpool-liðið. Liverpool 4-1 útisigur á belgíska félaginu Genk í gær og Merson var spurður út í mat sitt á Liverpool liðinu á þessari stundu eins og sjá má hér fyrir neðan.





„Liverpool var ekki að tapa stigum á Old Trafford heldur var þetta unnið stig hjá liðinu. Leikirnir á móti Manchester United eru eins og bikarúrslitaleikir. Þeir sem horfðu á leikinn voru líka að velta því fyrir sér af hverju United liðið spilar ekki svona vel í hverri viku,“ sagði Paul Merson.

„Sex stiga forskot er ennþá mikið forskot og Liverpool tekur á móti Manchester City á heimavelli sínum áður en þeir mæta þeim á útivelli,“ sagði Merson en Liverpool fær Manchester City í heimsókn á Anfield 11. nóvember næstkomandi.

„Ef Liverpool vinnur Man. City í nóvember þá er þetta komið hjá þeim,“ sagði Merson en er ekki full snemmt að koma með slíkar yfirlýsingar?

„Við erum að tala um lið sem tapaði aðeins einum leik á síðasta tímabili og hefur unnið alla leiki nema einn á þessu tímabili og sá endaði með jafntefli. Þetta er ekki fótboltalið sem er að fara að tapa fimm leikjum eftir það því það þyrfti að gerast. Manchester City vinnur aldrei alla leikina sína,“ sagði Merson.

Paul Merson spilaði yfir 300 leiki með Arsenal og vann ensku úrvalsdeildina tvisvar sinnum með félaginu. Hann hefur starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi undanfarin ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×