Enski boltinn

Sláandi munur á Liverpool fyrir og eftir komu Van Dijk

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Van Dijk í baráttunni við Marcus Rashford.
Van Dijk í baráttunni við Marcus Rashford. Vísir/Getty
Liverpool gerði Virgil van Dijk að dýrasta varnarmanni í heimi, á þeim tíma, í janúar á síðasta ári. Síðan þá hefur þessi 28 ára Hollendingur verið einn besti knattspyrnumaður í heimi. Munurinn á Liverpool í 61 leik fyrir komu Van Dijk og þeim 61 leik sem hann hefur leikið er hreint út sagt sláandi.

Sky Sports bar saman 61 leik fyrir komu Van Dijk og svo þá 61 leik sem hann hefur leikið fyrir Liverpool. Það er þó vert að taka fram að koma markvarðarins Alisson frá Roma hefur einnig hjálpað til við að bæta varnarleik liðsins. Þá má einnig nefna félaga Van Dijk í miðverðinum,  Joël Matip, en Kamerúninn með löngu lappirnar hefur blómstrað við hlið Hollendingsins. 

Fabinho, djúpi miðjumaður Liverpool, á einnig hrós skilið að ógleymdum mögnuðum sóknarbakvörðum liðsins, þeim Trent Alexander-Arnold og Andrew Robertson. 

Alls hefur Van Dijk leikið 61 leik fyrir Liverpool og því tók Sky saman tölfræði yfir síðusta 61 leik sem Liverpool lék áður en hann kom og þá leiki sem miðvörðurinn stóri og stæðilegi hefur leikið fyrir félagið.

Ótrúlegur munur

1. Sigurhlutfall liðsins hefur farið úr 57% upp í 75%.

2. Í 61 leik fyrir komu Van Dijk fékk Liverpool á sig 70 mörk, í 61 leik með Van Dijk er þessi tala komin niður í 32 mörk.

3. Liðið fór úr því að halda marki sínu hreinu 21 sinni yfir í að halda því hreinu 31 sinni.

4. Mistökum sem leiða til marka hefur fækkað úr 14 niður í fimm.

5. Að lokum hefur liðið farið úr því að fá á sig 17 mörk úr föstum leikatriðum niður í aðeins 11. 

Það er því ljóst að koma Van Dijk hefur gjörbylt leik Liverpool. Nú er bara að bíða og sjá hvort það dugi til að landa Englandsmeistaratitlinum sjálfum.


Tengdar fréttir

Mourinho: Ef ég væri Ole væri ég stoltur og pirraður

José Mourinho, fyrrum þjálfari Manchester United, var á leik liðsins gegn Liverpool á Old Trafford í dag sem starfsmaður Sky Sports. Þar var hann ásamt þeim Roy Keane, Graeme Souness, Gary Neville, Jamie Carragher og Dave Jones.

Chelsea með Eið Smára innanborðs eina liðið til að vinna fyrstu níu

Fyrir leik Manchester United og Liverpool í dag var ljóst að Jürgen Klopp og hans menn gætu jafnað met sem Chelsea setti árið 2005 undir stjórn José Mourinho. Annað met sem Liverpool hefði getað jafnað var met Manchester City sem vann 18 leiki í röð. Fyrir leikinn í dag hafði Liverpool unnið 17 leiki í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×