„Það er mér mikil ánægja að náðst hafi samstaða um frekari eflingu norræns samstarfs á alþjóðavettvangi og ekki síður að Björn Bjarnason skyldi veljast til verksins. Fáir eru eins vel í stakk búnir til að móta framtíðarsýn í þessum málum,“ sagði Guðlaugur Þór. Efling samstarfsins hafi verið forgangsmál í formennsku Íslands í samstarfi norrænu utanríkisráðherranna. Fyrsti áfanginn í þeirri vinnu var stöðuskýrsla sem forstöðumenn norrænu alþjóðastofnananna unnu og afhentu í vor um framkvæmd tillagna úr skýrslu Thorvald Stoltenbergs frá 2009 að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Norðurslóðir og málefni hinsegin fólks
Guðlaugur Þór fór um víðan völl í ræðu sinni en hann gerði málefni hinsegin fólks meðal annars að umræðuefni. „Norðurlöndin voru í fararbroddi þeirra ríkja sem settu umhverfismál og jafnréttimál á oddinn, og barátta okkar í málefnum LGBTI fólks hefur vakið verðskuldaða athygli. Þessi barátta okkar, ásamt fjölda annarra sem betur fer, hefur fært þessi mál frá jaðri inn á miðju í mörgum samfélögum,“ sagði Guðlaugur Þór.Þá vék hann máli sínu að málefnum norðurslóða og auknum áhuga Bandaríkjamanna á svæðinu en Ísland gegnir nú formennsku í Norðurskautsráðinu. „Það er ánægjuefni enda viljum að Bandaríkin séu sem virkust á alþjóðavettvangi. Það er mikilvægt að hafa í huga að núverandi aðstæður á alþjóðavettvangi kalla á meiri, en ekki minni, samvinnu við okkar bandamenn,“ sagði Guðlaugur Þór.