Tíu hinna látnu voru undir tvítugu og þar af tveir drengir aðeins fimmtán ára gamlir, þeir Dinh Dinh Binh og Nguyen Huy Hung. Elsta fórnarlambið var hinn 44 ára gamli Le Ngoc Thanh samkvæmt lista sem BBC hefur birt. Í gámnum fundust 31 karlmaður og átta konur.
Sjá einnig: Segja vörubílinn hafa verið í bílalest sem flutti yfir hundrað innflytjendur
Lögregla hafði áður gefið það út að nokkurn tíma gæti tekið að bera kennsl á líkin þar sem um væri að ræða umfangsmikla aðgerð. Voru fingraför, húðflúr, ör, tanngreiningar og DNA-próf notuð til þess að bera kennsl á hin látnu.
Öll fórnarlömbin eru frá Víetnam en áður var talið að um væri að ræða kínverska ríkisborgara. Eftir að áhyggjufullar fjölskyldur í Víetnam fóru að setja sig í samband við yfirvöld í Bretlandi og lýsa yfir áhyggjum af ástvinum sínum kom fljótlega í ljós að áhyggjur þeirra væru á rökum reistar.
„Mamma. Ég elska þig og pabba svo mikið.“
Hin 26 ára gamla Pham Thi Tra My var einnig á meðal fórnarlambanna. Degi áður en líkin fundust í gámi bílsins hafði hún sent móður sinni skilaboð þar sem hún sagði ferðalag sitt hafa mistekist.„Mér þykir svo fyrir þessu, mamma og pabbi. Ferðalagið til útlanda tókst ekki. Mamma. Ég elska þig og pabba svo mikið. Ég er að deyja vegna þess að ég get ekki andað. Ég er frá Can Loc Ha Tinh. Víetnam. Mamma. Mér þykir fyrir þessu,“ sagði í skilaboðum Tra My.
Bróðir Tra My fullyrti að hann hafði þurft að greiða tæplega fimm milljónir íslenskra króna fyrir það að koma systur sinni til Bretlands. Hann hefði síðast heyrt í henni í Belgíu en hún lagði af stað frá Víetnam þann 3. október.
Bílstjóri vörubílsins, hinn norður-írski Maurice Robinson, hefur verið í úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna málsins grunaður um 39 manndráp. Þá var einnig lýst eftir tveimur norður-írskum bræðrum í tengslum við rannsóknina en þeir eru einnig grunaðir um manndráp og mansal.