Innlent

Berg­­fyllan í Ketu­björgum féll fram í sjó

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessar myndir eru frá árinu 2015 þegar lögreglan lokaði svæðinu af öryggisástæðum.
Þessar myndir eru frá árinu 2015 þegar lögreglan lokaði svæðinu af öryggisástæðum. mynd/lögreglan skagafirði
Bergfyllan sem skagað hefur út frá bjargbrúninni á Ketubjörgum á Skaga undanfarin ár féll fram í sjó um helgina. Þúsundir tonna af jarðvegi fóru því í sjóinn en frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Þar er rætt við Ingólf Sveinsson frá Lágmúla á Skaga sem kveðst varla hafa trúað sínum eigin augum þegar hann sá að fyllan væri hrunin úr bjarginu. Ekki er vitað hvenær um helgina bergfyllan hrundi fram en hún var þó á sínum stað á föstudaginn.

Ketubjörg eru um 40 kílómetra norður af Sauðárkróki og vinsæll útsýnisstaður ferðamanna. Svæðið þar sem fyllan losnaði frá bjarginu heitir Innri-Bjargavík en lögreglan lokaði svæðinu tímabundið árið 2015 eftir að hættulegar sprungur tóku að myndast.

Það gerðist eftir að klakastífla myndaðist á svæðinu svo lækjarvatn tók að smjúga niður í móbergið þannig að það losnaði.

Um 65 metra hár klettur gróf sig frá berginu og varð frístanandi en á milli hans og bergsins var gjá sem breikkaði og var orðin á þriðja metra þegar bergfyllan hrundi fram. Allt að 20 metra hár bingur af mold og grjóti er nú undir berginu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem Elvar Már Jóhannsson, áhugaljósmyndari á Sauðárkróki, tók á svæðinu í gær en á því sést að kletturinn er horfinn og í staðinn kominn jarðvegsbingur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×