Erlent

Herinn kvaddur til vegna flóða á Englandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúi nærri Doncaster vinnur að hreinsunarstarfi eftir flóðin sem hófust þar í síðustu viku.
Íbúi nærri Doncaster vinnur að hreinsunarstarfi eftir flóðin sem hófust þar í síðustu viku. Vísir/EPA
Óttast er að sumir íbúar bæjarins Fishlake í Suður-Jórvíkurskíri á Englandi verði heimilislausir næstu vikurnar vegna flóðs í ánni Don. Um hundrað hermenn hafa verið sendir á svæðið til þess að hjálpa til vegna þeirra. Frekari úrkomu er spáð og er varað fyrir flóðahættu víða um landið í dag og á morgun.

Flætt hefur inn á um 500 heimili í Doncaster og hefur íbúum í um þúsund íbúðarhúsum verið skipað að flýja á svæðinu, þar á meðal nokkur hundruð íbúum bæjarins Fishlake eftir að hann fór á flot. Íbúar hafa verið varaðir sterklega við því að snúa heim til sín til að bjarga eigum sínum þar sem aðstæður séu enn hættulegar þar.

Starfsmenn sveitarfélagsins með aðstoð hersins reyna nú að dæla flóðvatni burt svo fólk komist aftur til síns heima, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Fimm alvarlegum flóðviðvörunum í Don-ánni í Suður-Jórvíkurskíri hefur verið aflétt en tuttugu almennar viðvaranir vegna flóða eru enn í gildi. Flóðin hófust í síðustu viku eftir úrhelli þar sem sum svæði fengu yfir sig jafngildi mánaðarúrkomu á einum degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×