Erlent

Dæmdur morðingi meðal þeirra sem skárust í leikinn í Lundúnum

Eiður Þór Árnason skrifar
Myndband náðist af því þegar menn yfirbuguðu Usman Khan stuttu áður en lögregla skaut hann til bana.
Myndband náðist af því þegar menn yfirbuguðu Usman Khan stuttu áður en lögregla skaut hann til bana. Vísir/AP
Greint var frá því síðasta föstudag að hópur almennra borgara hafi tekið málin í sínar eigin hendur þegar þeir urðu vitni að ódæði Usman Khan á Lundúnarbrú.

Khan hafði stungið tvo til bana og sært þrjá til viðbótar þegar hópur manna skarst í leikinn og náði að yfirbuga hann og ná hnífnum af honum stuttu áður en lögregla kom á vettvang.

Einn þeirra er sagður hafa verið James Ford, sem var dæmdur fyrir morðið á ungri konu árið 2004, er fram kemur í frétt Sky News.

Sjá einnig:25 ára lögfræðingur meðal þeirra sem voru stungin til bana í gær

Amanda Champion var 21 árs þegar hún var kyrkt og skorin á háls af Ford í breska bænum Ashford. Ford var sóttur til saka á sínum tíma eftir að starfsmaður góðgerðasamtaka braut þagnareið og greindi lögreglu frá því að Ford hafi hringt í hjálparsíma samtakanna og játað að hafa myrt konu.

Ford sat endurhæfingaráðstefnu fyrir fanga sem haldin var á vegum samtakanna Learning Together á föstudag ásamt árásarmanninum Khan og minnst eins fórnarlamba hans.

Sjá einnig: Árásarmaðurinn á Lundúnabrú nafngreindur

Á myndböndum sem náðust af átökunum sést meðal annars einn maður sprauta á árásarmanninn með eldslökkvitæki og annar ógna honum með eins og hálfs metra langri náhvalstönn. Einnig hefur verið greint frá því að lögreglumaður sem var í fríi hafi átt þátt í að afvopna hann.

Ef marka má heimildarmann PA fréttaveitunnar var Ford ekki eini dæmdi brotamaðurinn sem tók þátt í því að yfirbuga Khan þennan örlagaríka dag.


Tengdar fréttir

Tveir látnir eftir árásina í London

Tveir létust og þrír til viðbótar slösuðust eftir hnífaárás á London Bridge í bresku höfuðborginni. Lögreglan ytra hefur staðfest að maður hafi, vopnaður hnífi og íklæddur gervi-sprengjuvesti hafi ráðist að vegfarendum.

Árásarmaðurinn á Lundúnabrú nafngreindur

Árásarmaðurinn sem stakk tvo til bana og særði þrjá til viðbótar í árás á Lundúnabrú hefur verið nafngreindur. Hann hét Usman Khan og var 28 ára.

Einn skotinn af lögreglu eftir hnífaárás í London

Nokkur fjöldi fólks er talinn hafa slasast eftir hnífaárás á London Bridge í ensku höfuðborginni um klukkan tvö í dag. Lögregla er með mikinn viðbúnað vegna málsins og hefur að minnsta kosti einn verið skotinn í tengslum við árásirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×