Innlent

Funduðu með rannsakendum frá Noregi og Namibíu í Haag

Birgir Olgeirsson skrifar

Fulltrúar embættis héraðssaksóknara fóru til Haag í Hollandi í síðustu viku til að funda með rannsakendum frá Namibíu og Noregi vegna Samherjamálsins, samkvæmt heimildum fréttastofu. 

Skattrannsóknarstjóri og héraðssaksóknara rannsaka Samherja málið hér á landi. Efnahagsbrotadeild norsku lögreglunnar rannsakar viðskipti Samherja við norska bankann DNB og spillingarlögreglan í Namibíu fer með rannsókn málsins þar í landi.

Rannsakendur frá héraðssaksóknara, norsku lögreglunni og þeirri namibísku funduðu í hollensku borginni Haag í síðustu viku. Í Haag er að finna höfuðstöðvar Evrópulögreglunnar Europol þar sem Ísland á sinn tengslafulltrúa.

Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Namibíu falla undir íslensk hegningarlög. Þar segir að refsa skuli eftir íslenskum lögum fyrir mútugreiðslur til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum. Jóhannes Stefánsson uppljóstrari hefur þegar gefið skattrannsóknarstjóra og héraðssaksóknara skýrslu um málið.

Sjö eru í haldi í Namibíu vegna rannsóknar á mútugreiðslum sem eiga að hafa borist frá félögum Samherja til ráðamanna fyrir úthlutun aflaheimilda.

Þar á meðal eru fyrrverandi sjávarútvegsráðherra landsins og hákarlarnir þrír. Beiðni þeirra um að vera sleppt tafarlaust úr haldi verður tekin fyrir á fimmtudag. Sjávarútvegsráðherrann fyrrverandi segir ásakanirnar byggðar á pólitískum grunni með það að markmiði að koma ráðandi stjórnvöldum frá.

Sá sjöundi sem er í haldi var gripinn glóðvolgur á laugardag við að reyna fjarlægja meint sönnunargögn af heimili dómsmálaráðherrans fyrrverandi, sem er einn hákarlanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×