Enski boltinn

Sá sem situr í stól Klopp í kvöld er með hæstu þjálfaragráðu UEFA

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neil Critchley hefur unnið fyrir Liverpool í sex ár.
Neil Critchley hefur unnið fyrir Liverpool í sex ár. Getty/Nick Taylor

Það verður enginn Jürgen Klopp á hliðarlínu Liverpool í kvöld þegar liðið mætir Aston Villa í átta liða úrslitum enska deildabikarsins. Þetta verður fyrsti leikur aðalliðs Liverpool í fimmtíu mánuði þar sem einhver annar en Klopp stýrir liðinu.

Jürgen Klopp tók við Liverpool í október 2015 og hefur stjórnað öllum leikjum aðalliðsins á þeim fjórum árum og tveimur mánuðum sem hann hefur starfað sem knattspyrnustjóri félagsins.

Klopp er hins vegar staddur í allt annarri heimsálfu í kvöld því hann er með aðalliðið í Katar þar sem Liverpool liðið mætir Monterrey frá Mexíkó í undanúrslitum heimsmeistarakeppni félagsliða.



Maðurinn sem situr í „stól“ Klopp á Villa Park heitir Neil Critchley og er 41 árs gamall Englendingur sem er þjálfari 23 ára liðs félagsins.

Knattspyrnuferill Neil Critchley var ekki upp á marga fiska en hann spilaði einn leik fyrir Crewe Alexandra tímabilið 1999-2000 og þrjá leiki fyrir utandeildarliðið Leigh RMI tímabilið á eftir. Eini byrjunarliðsleikurinn kom í bikarleik með Leigh.

Neil Critchley skipti yfir í þjálfun og snéri til baka til Crewe og varð þar yfirmaður knattspyrnumála árið 2007.

Hann er einn af sextán þjálfurum í Englandi sem hafa klárað hæstu þjálfaragráðunum hjá UEFA.

Critchley kom til Liverpool árið 2013 og tók fyrst við átján ára liði félagsins sem hann þjálfaði í fjögur ár. Neil Critchley varð síðan þjálfari 23 ára liðsins árið 2017.

Nú kemur stóra tækifærið og hann fær á sig sviðsljósið í kvöld.



„Þetta er stórt tækifæri fyrir okkur alla, mig meðtalinn. Ég er mjög stoltur yfir því að fá að stýra liðinu en ég þarf líka að fá stolt frá mínum leikmönnum að sýna hvað í þeim býr,“ sagði Neil Critchley á blaðamannafundi fyrir leikinn.

Jürgen Klopp sjálfur tók samt ekki ákvörðunina um hver myndi stýra Liverpool liðinu í kvöld. „Það voru augljóslega einhverjir háttsettari en ég sem tóku þá ákvörðun. Félagið þurfti að taka ákvörðun og þeir komust að þessari niðurstöðu. þetta er einstakar kringumstæður og ég held að þetta hafi ekki gerst áður,“ sagði Jürgen Klopp.

Forráðamenn Liverpool hafa ekki aðeins mikla trú á Neil Critchley því enska sambandið valdi hann sérstaklega til að vera einn fyrstu Englendingum til að taka hæsta þjálfaraprófið hjá UEFA.

Leikur Aston Villa og Liverpool hefst klukkan 19.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×