Enski boltinn

Flugvél bíður eftir nokkrum af ungu leikmönnum Liverpool í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp vill fá nokkra af ungu leikmönnunum til Katar í kvöld. Hér sést hann sjálfur í flugvélinni sem fór með aðallið Liverpool á HM félagsliða í Katar.
Jürgen Klopp vill fá nokkra af ungu leikmönnunum til Katar í kvöld. Hér sést hann sjálfur í flugvélinni sem fór með aðallið Liverpool á HM félagsliða í Katar. Getty/Andrew Powell

Draumurinn um að spila á heimsmeistaramóti félagsliða í Katar er ekki úti fyrir ungu strákana sem mæta Aston Villa í átta liða úrslitum enska deildabikarsins í kvöld.

Neil Critchley stýrir Liverpool liðinu í kvöld og á blaðamannafundi fyrir leikinn sagði hann frá því að nokkrir liðsins í kvöld gætu verið á leið til Katar eftir leikinn.

Aðallið Liverpool er allt flogið til Katar þar sem liðið spilar undanúrslitaleik sinn á morgun. Lið Liverpool í kvöld verður því allt skipað leikmönnum liðsins í kringum tvítugsaldurinn.

Leikur Aston Villa og Liverpool hefst klukkan 19.45 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.

„Ég veit ekki betur en að það bíði flugvél eftir þeim. Þetta fer samt eftir því hvernig þeir standa sig í leiknum,“ sagði Neil Critchley á blaðamannafundinum í gær.

„Við sjáum til. Ég held að það verði einn eða tveir sem fari með. Ég reyni líka kannski að smygla mér með líka,“ sagði Neil Critchley léttur.

Neil Critchley vildi þó ekki nefna einhverja ákveðna leikmenn í þessu samhengi. „Ég er viss um að einn eða tveir muni fara. Ég veit það samt hreinlega ekki á þessum tímapunkti,“ svaraði Critchley.



Liverpool bætti þeim Sepp van den Berg, Ki-Jana Hoever og Harvey Elliott við HM-hópinn sinn í gær og þeir eru því líklegir til að fljúga til Katar eftir leikinn á móti Aston Villa í kvöld.

Neil Critchley lagði áherslu á það að leikmennirnir sem munu spila fyrir Liverpool í kvöld þekkist mjög vel. „Þetta er ekki hópur sem var hent saman í fljótheitum. Þetta er hópur sem hefur verið mjög mikið saman,“ sagði Neil Critchley.

„Það er mjög mikilvægt að við förum út í þennan leik og spilum eins og Liverpool lið. Það er pressa frá okkur í teyminu að leikmennirnir spili eins og Liverpool lið,“ sagði Critchley.

Neil Critchley hrósaði líka Jürgen Klopp. „Við erum heppnir að knattspyrnustjórinn hefur trú á ungum leikmönnum og gefur þeim tækifæri. Stjórinn okkar hefur mikinn áhuga á ungum leikmönnum og ég get komið og talað við hann hvenær sem er. Hann þekkir þá alla vel,“ sagði Critchley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×