Enski boltinn

Sú markahæsta hjá Manchester United fær sinn fyrsta atvinnumannasamning

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lauren James hefur raðað inn mörkum í búningi Manchester United.
Lauren James hefur raðað inn mörkum í búningi Manchester United. Getty/Morgan Harlow

Lauren James átti mikinn þátt í því að kvennalið Manchester United er komið upp í úrvalsdeildina en var fyrst núna að skrifa undir atvinnumannasamning við United.

Lauren James kom til Manchester United frá Arsenal í júlí 2018 en fékk ekki atvinnumannasamning strax. Lauren James er fædd 29. september 2001.

Lauren James skoraði 14 mörk í 18 leikjum í ensku b-deildinni á síðustu leiktíð og hefur alls skorað 24 mörk í 39 leikjum fyrir Manchester United.

Hún er markahæsti leikmaður liðsins á þessu tímabili og var nálægt því að vera markahæst í liðinu í fyrra.



„Félagið hefur mikinn metnað og ég spennt fyrir því að fá að vera hluti af því,“ sagði hin átján ára gamla Lauren James.

„Ég vona að ég geti áfram að bæta mig hér í mörg ár til viðbótar,“ sagði Lauren.

Lauren skoraði meðal annars fyrsta mark kvennaliðs Manchester United í ensku úrvalsdeildinni þegar hún kom liðinu í 1-0 á móti Liverpool í september. Lauren James er alls komin með 7 mörk í 11 leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili.

Casey Stoney, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Lauren James eigi bjarta framtíð í boltanum.

„Hún er ein af teknískari leikmönnum sem ég hef unnið með. Hún hefur einstaka hæfileika og hennar er framtíðin,“ sagði Casey Stoney.

Lauren James á leiki fyrir bæði sautján ára og nítján ára landslið Englands en á enn eftir að fá tækifæri með A-landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×