Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eitt marka AGF í 1-3 sigri á toppliði Midtjylland í dönsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Mikael Neville Anderson lék allan leikinn fyrir Midtjylland sem var marki yfir í hálfleik. En AGF sneri dæminu sér í vil og skoraði þrjú mörk á fyrstu átta mínútum seinni hálfleiks.
Jón Dagur kom AGF í 1-2 með skalla eftir fyrirgjöf Alexanders Munksgaard á 52. mínútu. Tveimur mínútum síðar kom Bror Blume AGF í 1-3 og þar við sat.
AGF er í 3. sæti deildarinnar með 36 stig, 14 stigum á eftir Midtjylland sem er með góða forystu á toppnum þrátt fyrir tapið í kvöld.
Jón Dagur hefur skorað fjögur mörk fyrir AGF á tímabilinu.
