Innlent

Björguðu ellefu hrossum úr snjónum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessa mynd birti björgunarsveitin Brák af björgun hrossanna.
Þessa mynd birti björgunarsveitin Brák af björgun hrossanna.

Þrír björgunarsveitarmenn sem eru félagar í björgunarsveitinni Brák héldu norður í Húnavatnssýslu í gær til þess að aðstoða félaga sína við að sinna verkefnum sem safnast hafði upp vegna óveðursins.

Að því er fram kemur í færslu á Facebook-síðu björgunarsveitarinnar hafa þeir í gær og dag barið ísingu af spennulínum og svo björguðu ellefu hrossum í dag sem höfðu grafist niður í snjóinn.

Á vef Matvælastofnunar er brýnt fyrir hrossaeigendum að koma heyi til útigangshrossa og huga vel að ástandi þeirra nú þegar veðurofsinn sem geisað hefur á landinu er genginn niður.

„Frosthörkur í kjölfar norðan áhlaups kallar á aukið eftirlit og umhirðu með hrossum á útigangi. Nauðsynlegt getur verið að moka leið að hrossum til að koma til þeirra heyi þar sem skaflar eru miklir. Hross á útigangi þurfa að vera í ríflegum holdum á þessum árstíma,“ segir á vef MAST.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×