Innlent

„Snýst auðvitað um líf fólks í landinu“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra. Vísir/Vilhelm

Endurbætur á dreifi- og flutningskerfi raforku hefur hafa gengið of hægt og óveðrið sem gengið hefur yfir landið í þessari viku er lærdómur um að gera þurfi betur. Þetta segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra. 

Í færslu sem hún birtir á Facebook í dag nefnir hún dæmi um mágkonu sína sem vinnur á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Hvammstanga sem þurfti að finna lyf handa sjúklingum í svarta myrkri með vasaljós á enninu. „Bærinn rafmagnslaus og ekkert varaafl. Eitt dæmi af ótalmörgum um áhrif óveðursins á það sem við köllum því stofnanalega nafni „flutnings- og dreifikerfi raforku“ en snýst auðvitað um líf fólksins í landinu,“ skrifar Þórdís.

Sjá einnig: Kallar saman þjóðaröryggisráð vegna óveðursins

Þá ítrekar hún í færslu sinni að hún standi við þau orð sín um að þeir sem búi á höfuðborgarsvæðinu geri sér ekki alltaf nógu vel grein fyrir þeim veruleika sem margir búi við úti á landi hvað þetta varðar. „forstjóri Rarik staðfesti í útvarpsviðtali í morgun að það væri tvennt ólíkt að ræða við heimamenn um línulagnir en þá sem eiga jarðir en búa ekki sjálfir á svæðinu. Það er skýr birtingarmynd þess sem ég hef sagt. Vonandi eykst núna skilningur á mikilvægi traustra innvið,“ segir Þórdís.

Henni séu þó efst í huga þeir sem hafi mátt þola ýmis harðindi vegna veðurofsans og þakklæti til viðbragðsaðila sem staðið hafa vaktina. „Truflanir á þessum skala eru nær óþekktar þó að horft sé áratugi aftur í tímann. Það segir okkur að kerfið sé nokkuð gott. En ekki nógu gott. Landsnet hefur í níu ár af síðustu tíu náð markmiði sínu um 99,99% áreiðanleika kerfisins gagnvart forgangsnotendum. Það er góður árangur en óveðrið núna er engu að síður lærdómur um að gera þarf betur,“ segir í færslu Þórdísar.

Aukin áhersla stjórnvalda á jarðstrengi hafi skilað sér í auknu afhendingaröryggi og halda þurfi áfram á þeirri braut. Tæknilegar hindranir geri það þó af verkum að það sé ekki hægt í öllum tilfellum.

„Endurbætur hafa gengið of hægt. Sérfræðingar fullyrða að samþykktarferlið hafi tafið úrbætur sem í einhverjum tilvikum hefðu dregið stórlega úr vandkvæðunum núna. Í dag er mikilvægast að koma aftur á rafmagni alls staðar eins fljótt og auðið er. En samhliða því ætlum við strax að greina atburðarásina og hvernig koma megi í veg fyrir þessa stöðu,“ segir Þórdís.


Tengdar fréttir

Ríkisstjórnin muni leggjast yfir afleiðingar óveðursins

"Ríkisstjórnin mun taka höndum saman og leggjast yfir það sem gekk á hérna á undanförnum dögum og fara í það hvernig við getum farið bara í beinharðar aðgerðir til þess að læra af því,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Kallar saman þjóðaröryggisráð vegna óveðursins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður þjóðaröryggisráðs hefur boðað til fundar í þjóðaröryggisráði síðdegis í dag vegna þess ofsaveðurs sem gekk yfir landið og þeirra afleiðinga sem það hefur haft.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×