Innlent

Unglingspiltur var að aðstoða bónda þegar hann féll í ána

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar leggur af stað frá Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar leggur af stað frá Reykjavíkurflugvelli í gærkvöldi. Vísir/vilhelm

Unglingspiltur féll í Núpá í Sölvadal inni af Eyjafirði í gærkvöldi þegar hann var að aðstoða bónda við ána. Pilturinn er enn ófundinn en leit verður haldið áfram í dag.

Hermann Karlsson aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri er í aðgerðastjórn almannavarna, sem stjórnar leitinni. Hann staðfestir í samtali við Vísi að um hafi verið að ræða unglingspilt en hann féll í ána þegar krapabylgja hreif hann með sér.

Í frétt RÚV kemur fram að pilturinn og bóndinn hafi verið að vinna að því að koma á rafmagni. Hermanni var þó ekki kunnugt um það. Þá segir hann að lögregla hafi grófa hugmynd um aðdraganda slyssins í gærkvöldi en vildi litlu við það bæta.

RÚV hefur eftir Jóhannesi Sigfússyni aðstoðaryfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra að bóndanum hafi tekist að forða sér frá krapabylgjunni. Þá hafi bóndinn og drengurinn verið að vinna að því að hreinsa krapa frá inntaki, en við ána er heimarafstöð, lón og stífla.

TF-Eir leggur af stað norður frá Reykjavíkurflugvelli í nótt.Mynd/landhelgisgæslan

Hermann segir að leit við Núpá verði haldið áfram í dag. Bætt verður í mannskap, m.a. með liði frá öðrum svæðum, þegar líður á daginn. Fjöldi björgunarmanna, sérhæfðra kafara og straumbjörgunarmanna hefur aðstoðað við leitina og þá hefur þyrla Landhelgisgæslunnar, TF- Líf, aðstoðað við að ferja mannskap.

Hún hefur einnig verið notuð beint við leitina, að sögn Hermanns. Veður er slæmt á svæðinu og hafa aðstæður við leitina verið erfiðar í nótt og í morgun.

Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-Eir, var send með tíu sérhæfða straumbjörgunarmenn á slysstað í nótt. Hún lenti aftur í Reykjavík snemma í morgun, samkvæmt upplýsingum frá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×