Enski boltinn

Moyes orðinn stjóri West Ham

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Moyes er orðinn stjóri West Ham á nýjan leik
Moyes er orðinn stjóri West Ham á nýjan leik mynd/west ham

David Moyes er nýr knattspyrnustjóri West Ham. Félagið greindi frá þessu í kvöld.

Moyes tekur við starfinu frá Manuel Pellegrini sem var rekinn eftir tap West Ham gegn Leicester í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Skotinn er að taka við West Ham í annað skipti en hann bjargaði liðinu frá falli tímabilið 2017-18.





Moyes skrifaði undir 18 mánaða samning við Hamrana. Hans fyrsti leikur með félagið verður heimaleikur gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni á nýársdag.

„David sannaði á stuttum tíma með félagið að hann getur náð í úrslit og við trúum því að hann geti komið félaginu á rétta braut á ný,“ sagði stjórnarformaður West Ham, David Sullivan, í tilkynningu félagsins.

„Það er frábært að vera kominn heim,“ sagði Moyes. „Ég hef saknað þess að vera hér því ég var mjög ánægður þann tíma sem ég var hér.“

Moyes hefur þjálfað í ensku úrvalsdeildinni í samtals 15 tímabil, þar á meðal stýrði hann Everton og Manchester United.

Hann hefur stýrt fleiri úrvalsdeildarleikjum heldur en flestir aðrir þjálfarar, aðeins Sir Alex Ferguson, Arsene Wenger og Harry Redknapp eiga fleiri leiki að baki.

West Ham er í 17. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, einu stigi frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×