Erlent

Stefnir á að senda sveitir uppreisnarmanna til Líbíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands.
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands. AP/Forsetaembætti Tyrklands

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, stefnir á að senda sýrlenskar uppreisnarsveitir til Líbíu. Þar er þeim ætlað að aðstoða alþjóðlega viðurkennda starfsstjórn landsins gegn sveitum hershöfðingjans Khalifa Haftar. Þetta tilkynnti Erdogan í gær og getur verið að fylkingin verði send til Líbíu strax í næsta mánuði.

Samhliða því mun Erdogan senda flota Tyrklands til að verja Trípóli, höfuðborg Líbíu, og hermenn til að sjálfa sveitir sjálfsstjórnarinnar.

Starfsstjórn Líbíu sem kallast Government of National Accord, eða GNA, hefur átt erfitt með að halda aftur af sókn sveita Haftar. Óskaði stjórnin eftir aðstoð Tyrkja. Áður en Erdogan sendir hersveitir á vettvang þarf hann þó samþykki þingsins.



Átökin í Líbíu eru nokkuð flókin þar sem Haftar er studdur af Egyptalandi, Jórdaníu, Rússlandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Frakklandi.

Tyrkir og GNA skrifuðu undir tvö samkomulög í síðasta mánuði. Annað sneri að hernaðaraðstoð en hitt að landhelgisdeilu í austanverðu Miðjarðarhafi. Tyrkir eiga þar í miklum deilum við Grikki og aðra nágranna sína.

Heimildarmaður Bloomberg innan GNA sagði starfsstjórnina í fyrstu hafa verið andsnúna því að leita til Tyrkja en það hafi breyst vegna mikils þunga sóknar Haftar. Hann hefur notið aðstoðar vel þjálfaðra málaliða frá Rússlandi og Súdan auk þess að hafa fengið dróna frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Yfirvöld Rússlands hafa lýst yfir áhyggjum af ætlunum Tyrkja og það hafa yfirvöld Bandaríkjanna gert sömuleiðis.

Umræddir uppreisnarhópar, sem til stendur að senda til Líbíu, innihalda öfgamenn, íslamista og jafnvel vígamenn Íslamska ríkisins og al-Qaeda og þeir hafa orð á sér fyrir ofbeldi og rán.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×