Enski boltinn

Draumadesembermánuður fyrir Bobby

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bobby Firmino fagnar með knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp í gær.
Bobby Firmino fagnar með knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp í gær. Getty/Andrew Powell

Brasilíumaðurinn Roberto Firmino var enn á ný á skotskónum með Liverpool í gærkvöldi en þetta hefur verið frábær jólamánuður fyrir þennan 28 ára leikmann.

Roberto Firmino sem er oftast kallaður Bobby var maðurinn á bak við sigur Liverpool í heimsmeistarakeppni félagsliða og eftir tvennu hans í gær er Liverpool komið með þrettán stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Bobby Firmino skoraði bæði sigurmarkið í undanúrslitaleik HM félagsliða sem og í úrslitaleiknum þar sem sigurmarkið hans á móti Flamengo kom ekki fyrr en í framlengingunni.



Þeir sem höfðu áhyggjur af því að sigur Liverpool í heimsmeistarakeppni félagsliða myndi trufla liðið í fyrsta leik eftir heimkomuna gátu ekki haft meira rangt fyrir sér.

Roberto Firmino skoraði fyrsta og þriðja markið í 4-0 sigri á Leicester City sem er samt áfram liðið í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, þrettán stigum á eftir Liverpool.

Bobby Firmino var kominn með 4 mörk í 25 leikjum fyrir þessa þrjá síðustu leiki þar sem hann hefur skorað fjögur mörk.



Hann hefur því skorað jafnmörg mörk á síðustu níu dögum og hann gerði á fyrstu 135 dögum tímabilsins.

Á öllu tímabilinu í fyrra þá var Bobby Firmino með 16 mörk í 48 leikjum í öllum keppnum þar af 12 mörk í 34 deildarleikjum og 4 mörk í 12 leikjum í Meistaradeildinni.

Eina þrenna hans í fyrra kom líka í desember eða þegar hann skoraði þrjú mörk í 5-1 sigri á Arsenal 29. desember 2018.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×