Enski boltinn

Staðarblaðið í Liverpool ekki eins hrifið af frammistöðu Gylfa og Sky Sports

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson þakkar fyrir stuðninginn í gær.
Gylfi Þór Sigurðsson þakkar fyrir stuðninginn í gær. Getty/Chris Brunskill

Gylfi Þór Sigurðsson stóð sig vel í fyrsta leik sínum undir stjórn Carlo Ancelotti í gær og átti mikinn þátt í sigurmarki Everton á móti Burnley. Það voru hins vegar ekki allir jafnhrifnir af frammistöðu íslenska landsliðsmannsins í leiknum.

Blaðamann Sky Sports voru það ánægðir með Gylfa í leiknum að þeir gáfu honum átta í einkunn og völdu hann mann leiksins.

„Ancelotti hefur lært heilmikið á því að horfa á liðið sitt frá hliðarlínunni en það sem stóð upp úr í leik Everton voru flottar sendingar frá Gylfa Sigurðssyni. Gylfi átti 17 af 33 sendingum Everton inn í vítateiginn og fjórar af þeim voru skráðar hafa skapað skotfæri. Það var aðeins meistaraframmistaða frá miðvörðunum Mee og Tarkowski sem kom í veg fyrir að Gylfi fengi stoðsendinguna sem hann átti svo skilið,“ sagði um frammistöðu Gylfa hjá Sky Sports.



Gylfi vann boltann í sigurmarki Dominic Calvert-Lewin tíu mínútum fyrir leikslok, kom honum á bakvörðinn Djibril Sidibe sem átti frábæra fyrirgjöf á kollinn á Calvert-Lewin.

Gylfi spilaði allan leikinn á miðri miðjunni við hlið Fabian Delph og í leikkerfinu 3-4-1-2. Gylfi og Delph voru því með vængbakverðina Djibril Sidibe og Lucas Digne til hliðar við sig en Bernard síðan fyrir framan sig.

Það var mat Sky Sports að enginn á vellinum hefði spilað betur en Gylfi en blaðamenn staðarblaðsins Liverpool Echo voru ekki alveg á sama máli.

Gylfi fékk þar „bara“ 6 í einkunn fyrir frammistöðu sína á móti Burnley.



Það voru fimm leikmenn Everton sem fengu hærra eða þeir Seamus Coleman, Mason Holgate, Yerry Mina, Djibril Sidibe og Dominic Calvert-Lewin sem allir voru með sjö í einkunn.

„Íslenski landsliðsmaðurinn spilaði við hlið Fabian Delph á miðjunni og aftar á vellinum en hann hefði óskað. Frammistaðan hans í varnarleiknum var samt betri en áður. Föstu leikatriðin hans voru svolítið óstöðug en hann átti engu að síður nokkrar hættulegar aukaspyrnur í leiknum sem liðsfélagar hans áttu að gera meira með,“ sagði um Gylfa í frammistöðumati Liverpool Echo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×