Enski boltinn

Neville: Leikmenn ættu að ganga af velli til að mótmæla kynþáttaníði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rüdiger varð fyrir kynþáttaníði í leiknum gegn Tottenham.
Rüdiger varð fyrir kynþáttaníði í leiknum gegn Tottenham. vísir/getty

Gary Neville segir að leikmenn ættu að ganga af velli til að mótmæla kynþáttaníði.

Antonio Rüdiger, varnarmaður Chelsea, varð fyrir kynþáttaníði í leiknum gegn Tottenham í gær.

„Kannski ættu við að valdefla leikmenn til að ganga af velli og stöðva skemmtunina,“ sagði Neville á Sky Sports eftir leikinn í gær.

Neville rifjaði upp þegar Ashley Cole og Shaun Wright-Phillips urðu fyrir kynþáttaníði í vináttulandsleik Englands og Spánar árið 2004.

„Ég gekk ekki af velli fyrir 15 árum og kannski er voða þægilegt fyrir mig í mínum fílabeinsturni hérna uppi í myndveri að tala um að leikmenn ættu að ganga af velli,“ sagði Neville.

„Á endanum skammast ég mín fyrir að hafa ekki gengið af velli fyrir 15 árum. En að sama skapi yrði ég stoltur ef leikmenn myndu gera eitthvað í þessu og taka völdin í sínar hendur,“ bætti Neville við.

Chelsea vann leikinn gegn Tottenham með tveimur mörkum gegn engu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×