Erlent

Forsætisráðherrann reynir að slökkva elda eftir óheppilegt frí

Kjartan Kjartansson skrifar
Morrison ræðir við slökkviliðsmann í Nýja Suður-Wales í Sydney í dag.
Morrison ræðir við slökkviliðsmann í Nýja Suður-Wales í Sydney í dag. Vísir/EPA

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, bað landa sína afsökunar á að hafa valdið þeim kvíða með því að fara í frí til Havaí á sama tíma og mannskæðir kjarreldar geisuðu heima fyrir. Fjarvera Morrison og aðgerðaleysi Frjálslynda flokks hans í loftslagsmálum hefur sætt harðri gagnrýni í ljósi eldanna.

Kjarreldar geisa nú í þremur ríkjum Ástralíu en að minnsta kosti níu manns hafa látið lífið í slíkum eldum frá því í september. Þá hafa um 700 heimili og milljónir hektarar lands orðið eldinum að bráð, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hitabylgja gerði ástandið enn eldfimara í vikunni. Meðalhiti á landsvísu fór yfir 40 gráður á þriðjudag.

Morrison stytti fjölskyldufríið á Havaí í ljósi gagnrýninnar. Þrátt fyrir að Morrison sýndi iðrun yfir því að hafa valdið þjóðinni kvíða þegar hann sneri heim þrætti forsætisráðherrann fyrir að loftslagsbreytingar af völdum manna tengdust eldunum nú með beinum hætti.

„Það er ekki trúverðugt að tengja það saman,“ hélt Morrison fram en viðurkenndi þó að loftslagsbreytingar ættu þátt í að breyta veðurkerfum.

Vísindamenn segja að þó að loftlagsbreytingar af völdum manna sé ekki beinlínis orsök kjarreldanna nú skapi þær heitara og þurrara loftslag sem gerir elda sem þessa tíðari og ákafari. Formaður stéttarfélags slökkviliðsmanna hefur meðal annars gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að ganga ekki fram fyrir skjöldu í loftslagsmálum. Tveir slökkviliðsmenn létu lífið þegar þeir börðust við eld í Nýja Suður-Wales á fimmtudag.

Fyrr í þessum mánuði var ríkisstjórn Morrison ein nokkurra í olíu- og kolaframleiðsluríkjum sem settu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Madríd í uppnám. Ástralía er eitt helsta kolaframleiðsluríki heims og hafa áströlsk stjórnvöld lengi dregið lappirnar í loftslagsmálum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×