Enski boltinn

Aðeins sex sköpuðu fleiri færi en Gylfi á áratugnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Everton liðinu. Þetta mark á móti West Ham var hann sextugasta í ensku úrvalsdeildinni.
Gylfi Þór Sigurðsson fagnar marki með Everton liðinu. Þetta mark á móti West Ham var hann sextugasta í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Jan Kruger

Gylfi Þór Sigurðsson er í flottum hópi þegar tekið var sama hverjir sköpuðu flest marktækifæri í ensku úrvalsdeildinni á áratugnum 2010 til 2019.

Síðustu leikir ensku úrvalsdeildarinnar á áratugnum fóru fram í gær og eftir það hafa fróðir menn tekið saman lista yfir þá sem bjuggu til flest færi fyrir liðsfélagana.

Það kemur sjálfsagt ekki mörgum á óvart að Manchester City maðurinn David Silva sé þar langefstur.

David Silva hefur spilað með Manchester City frá árinu 2010 og bjó alls til 768 marktækifæri á árunum 2010 til 2019.



Aðeins fimm aðrir leikmenn náðu að búa til fleiri færi en Gylfi á þessum tíu árum. Þeir eru Eden Hazard, Christian Eriksen, Mesut Özil, Leighton Baines og Juan Mata.

Gylfi lék með Swansea City, Tottenham og Everton á þessum tíma og bjó alls til 443 marktækifæri fyrir félaga sína í 266 leikjum eða 1,7 færi að meðaltali í leik.

Gylfi er með 60 mörk og 43 stoðsendingar í þessum 266 leikjum en enginn íslenskur leikmaður hefur skorað fleiri mörk eða gefið fleiri stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni.

David Silva bjó til sín 768 færi í 297 leikjum eða 2,6 að meðaltali í leik en Spánverjinn er með 57 mörk og 89 stoðsendingar í þessum leikjum sínum.

Einn liðsfélagi Gylfa í dag er fyrir ofan hann á listanum því Leighton Baines bjó til 506 færi á þessum áratugi.

Allir nema Eden Hazard eru enn að spila í ensku úrvalsdeildinni um þessi áratugamót.

Gylfi er síðan fjórum sendingum á undan Liverpool manninum James Milner.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×