Tilkynnt var um ölvaðan og æstan mann sem veittist að fólki í Smáralind í gærkvöldi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu. Þar segir að tilkynningin hafi komið um klukkan 20:40 í gær. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fagnageymslu.
Einnig segir frá því að skömmu eftir klukkan 18 í gærkvöldi hafi verið tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 201 í Kópavogi. Segir að hinn grunaði hafi kastað frá sér þýfinu og hlaupið í burtu þegar starfsmaður hafi haft afskipti. Ekki tókst að hafa hendur í hári mannsins.
Um klukkan 22 stöðvaði lögregla bíl í hverfi 108 í Reykjavík. Var þar erlendur ökumaður grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og vörslu fíkniefna. Í ljós kom að ökuskírteini sem hann framvísaði var falsað og var hann handtekinn og vistaður í fangageymslu eftir sýnatöku.
Þá var einnig tilkynnt um innbrot í skúr í hverfi 110 í Reykjavík, eitt heimilisofbeldismál og einhver tilvik um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Alls voru ellefu manns vistaðir í fangageymslu vegna ýmissa mála.