Sport

Fölsuð áhorfendahljóð og sýndaráhorfendur í útsendingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikir frá NFL deildinni eru gríðarlega vinsælt sjónvarpsefni í Bandaríkjunum en þar hefur stemmningin á leikvöngunum mikið að segja.
Leikir frá NFL deildinni eru gríðarlega vinsælt sjónvarpsefni í Bandaríkjunum en þar hefur stemmningin á leikvöngunum mikið að segja. Getty/Joe Robbins

NFL-deild ameríska fótboltans á að hefjast í september en það lítur út fyrir að þar þurfi leikirnir mögulega að spilaðir án áhorfenda vegna kórónuveirunnar.

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, hefur látið það frá sér að hugsanlega þurfi NFL-deildin að spila allt 2020 tímabilið án áhorfenda en vanalega eru á bilinu sextíu til áttatíu þúsund manns á leikjunum.

Fox Sports leggur mikið upp úr útsendingum sínum frá NFL-deildinni enda kostaði sýningarétturinn mikið og sjónvarpsstöðin hefur miklar tekjur af útsendingunum enda NFL-deildin gríðarlega vinsæl.

Joe Buck er frægur sjónvarpsmaður sem mun lýsa NFL-leikjum á Fox Sports. Hann greindi frá því í útvarpsviðtali i þætti á Andy Cohen á SiriusXM að stöðin ætlar að fara sýna leiðir í að fela áhorfendaleysið.

Joe Buck sagði að Fox Sports ætli að spila gömul áhorfendahljóð á leikjunum og þá hefur stefnan líka verið sett á að fylla stúkurnar með sýndaráhorfendum.

„Það er nánast búið að ganga frá þessu. Ég held samt að sá sem mun stjórna þessum hljóðum þurfi að vera mjög góður í sínu starfi til að það líti út að þetta verði raunsæ viðbrögð áhorfenda við því sem er að gerast inn á vellinum. Það verður mjög mikilvægt til að þetta komi vel út,“ sagði Joe Buck.

„Ofan á það eru þeir að leita að leiðum til þess að vera með sýndaráhorfendur í stúkunum. Þegar við sjáum yfirlitsmyndina yfir allan völlinn þá á leikvangurinn að líta út fyrir að vera fullur af áhorfendum þó að hann sé í raun galtómur,“ sagði Joe Buck.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×