Innlent

Eldfjallafræðingurinn hafði aldrei séð svo stórkostlegan hraunfoss

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við hraunfossinn á fjórða degi eldgossins á Fimmvörðuhálsi.
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur við hraunfossinn á fjórða degi eldgossins á Fimmvörðuhálsi. Stöð 2/Skjáskot.

Hraunfossarnir sem fylgdu eldgosinu á Fimmvörðuhálsi eru með mögnuðustu náttúruundrum sem menn hafa orðið vitni að hérlendis. Tíu ár eru liðin um þessar mundir frá því tugþúsundir Íslendinga lögðu leið sína að gosstöðvunum.

„Við erum með hér sennilega hæsta foss á Íslandi. En hann er ekki vatnsfoss heldur er hann hraunfoss. Alveg einstakt fyrirbæri hér á Íslandi að hafa svona háan foss,“ sagði eldfjallafræðingurinn víðförli, Haraldur Sigurðsson, í fréttaviðtali við Stöð 2 á fjórða degi gossins þar sem hraunfossinn steyptist niður í Hrunagil.

Sjá einnig hér: Hraunfossinn stórkostlegt náttúrufyrirbæri

Hæð hraunfossins var áætluð hátt í tvöhundruð metrar.Stöð 2/Skjáskot.

„Hann getur verið hátt í tvöhundruð metra hár, þessi hraunfoss hérna. Þar sem hraunið streymir fram af brúninni og streymir niður í Þórsmörk.“

-Þetta er alveg bara magnað fyrirbæri. Hefur þú séð annað eins?

„Nei, ég hef aldrei séð svona háan foss. Ég hef séð svona hraunfossa í Havaii, en þeir eru svona 10-20 metrar. En þessi er alveg stórkostlegur,“ sagði Haraldur.

Hrraunfossarnir urðu jafnvel enn tilkomumeiri í myrkri.Stöð 2/Skjáskot.

Hraunfossar mynduðust á tveimur stöðum. Fyrst þegar hraunið féll niður í Hrunagil en svo á sjötta degi tók það einnig að falla fram af hömrunum niður í Hvannárgil. Hraunið rann svo áfram niður gilin og ríkti um tíma spenna um hvort það myndi ná alla leið niður í Krossá.

Sagan er rifjuð upp í tveimur þáttum sem Stöð 2 hefur framleitt í tilefni tíu ára afmælis eldgossins í Eyjafjallajökli. Fyrri þátturinn var sýndur síðastliðið mánudagskvöld. Síðari þátturinn verður sýndur á Stöð 2 að kvöldi annars í páskum, kl. 18.40.

Hér er myndskeið úr fyrri þættinum þar sem sjá má Harald lýsa hraunfossi á Fimmvörðuhálsi:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×