Innlent

Landslagsbreytingar enn að koma í ljós vegna Eyjafjallajökulsgossins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Horft niður brattan Gígjökull, sem fyrir gos náði niður í jökullón fyrir neðan. Til vinstri sést önnur aðalrásin sem tók við hamfarahlaupunum þegar þau sturtuðust niður úr toppgígnum.
Horft niður brattan Gígjökull, sem fyrir gos náði niður í jökullón fyrir neðan. Til vinstri sést önnur aðalrásin sem tók við hamfarahlaupunum þegar þau sturtuðust niður úr toppgígnum. Stöð 2/Einar Árnason.

Tíu ár eru í dag frá því eldgos hófst í toppgíg Eyjafjallajökuls, - öskugos sem olli búsifjum undir Eyjafjöllum og gerði Ísland frægara en nokkru sinni fyrr. Umtalsverðar breytingar urðu á landslagi sem hafa verið að koma æ betur í ljós allt fram á síðustu misseri. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.

Einna mestar breytingar á landslagi urðu við Gígjökul, á leiðinni inn í Þórsmörk. Heilt jökullón hvarf og skriðjökullinn er vart svipur hjá sjón.

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur við Gígjökul þar sem áður var jökullón.Stöð 2/Einar Árnason.

„Já, hér var djúpt lón,“ segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í viðtali á staðnum en þar sturtaðist niður megnið af hlaupvatninu þegar eldgígurinn bræddi jökulinn með gríðarlegum aurburði.

„Sennilega á um það bil hálftíma þá fylltist þetta lón algjörlega upp og hefur ekki sést síðan."

Sjá einnig hér: Eyjafjallajökull tók átján ár í að búa sig undir heimsfrægðina

„En jökullinn lét verulega á sjá og hörfaði upp í skarðið en hefur núna síðustu árin verið að skríða fram aftur. Hann fær efnið ofan frá núna og er að ná einhverri nýrri jafnvægisstöðu,“ segir Páll.

Á Fimmvörðuhálsi, í hraungosinu á undan, varð til nýtt landslag og ný örnefni; gígarnir Magni og Móði og Goðahraun, sem rann frá þeim.

Sjá einnig hér: Fyrir tíu árum flykktist fólk á Fimmvörðuháls

Ólafur Eggertsson, bóndi á Þorvaldseyri, hefur tekið eftir miklum breytingum á landslagi ofan Þorvaldseyrar.Stöð 2/Einar Árnason.

Í fjöllunum ofan Þorvaldseyrar hefur Ólafur Eggertsson bóndi tekið eftir miklum breytingum í stórbrotnu landslaginu á síðustu árum. Gil hafa sorfist og fossar breyst.

„Askan er að koma svo mikið niður með vatninu og hún er að sverfa hérna inn í bergið. Vatnið gengur hérna inn í og býr til þessar mjóu sprænur hérna,“ segir Ólafur.

Askan úr gosinu ýtti undir bráðnun jökulsins. Í ljós eru að koma nýir klettar og heilu fjöllin sem áður voru hulin ís.

„Það er búið að vera að spyrja um það: Hvað heitir þetta fjall? Og það er ekkert nafn á því. Þannig að nú þarf að fara að finna einhver ný nöfn á þessa nýju kletta sem eru að koma upp,“ segir Ólafur.

„Það þarf að gefa þeim nöfn. Landslag hefur tekið stórkostlegum breytingum hér. Það fer ekkert á milli mála,“ segir Páll.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×