Handbolti

Lauflétt kveðja Björgvins til Guðjóns: „Það endaði vel, með taugaáfalli“

Sindri Sverrisson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson hefur átt óteljandi sendingar fram á Guðjón Val Sigurðsson í hraðaupphlaupi.
Björgvin Páll Gústavsson hefur átt óteljandi sendingar fram á Guðjón Val Sigurðsson í hraðaupphlaupi. vísir/eyþór

„Loksins. Þetta tekur aðeins pressuna af okkur hinum að þurfa ekki að spila þar til við erum 60 ára,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson landsliðsmarkvörður í handbolta, laufléttur í bragði þegar hann sendi Guðjóni Val Sigurðssyni kveðju.

Guðjón Valur fór ítarlega yfir feril sinn með Henry Birgi Gunnarssyni í sérstökum þætti af Seinni bylgjunni, eftir að hafa lagt skóna á hilluna á dögunum. Hann fékk kveðjur frá nokkrum af félögum sínum úr handboltanum, meðal annars Björgvini sem var lengi herbergisfélagi hans:

„Ég held að þú sért að gera mig elstan í landsliðinu, sem er ekkert voðalega sniðugt. Ég er alla vega búinn að fá svona fjórum sinnum nú þegar spurninguna um það hvenær ég sé að fara að hætta, þannig að takk fyrir það,“ sagði Björgvin léttur, og bætti við:

„Takk líka fyrir HM 2019! Nei, já, þú meiddist og skildir mig einan eftir svo ég var einn í herbergi. Það endaði vel. Með taugaáfalli. Skrifaði bók um það. Flott. Takk fyrir það,“ sagði Björgvin sem eins og kunnugt er gaf út bókina Án filters, fyrir síðustu jól. Markvörðurinn benti Guðjóni svo á sinn þátt í heimsmetinu sem Guðjón á í markaskorun fyrir landslið.

„Aldrei gleyma því að ég á þátt í svona helmingnum af öllum mörkunum sem þú skoraðir með öllum sendingunum. Hafðu það gott og gangi þér vel í öllu þínu. Ég held með þér.“

Klippa: Seinni bylgjan - Kveðja til Guðjóns frá Björgvini

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir

Annar var rotaður og hinn kjálkabrotinn

Guðjón Valur Sigurðsson fær enn í magann þegar hann hugsar til þess að hann hafi sagt Alexander Petersson að harka af sér á EM í Sviss 2006. Seinna kom í ljós að Alexander var kjálkabrotinn.

Guðjón Valur þurfti að biðja Snorra Stein afsökunar

Guðjón Valur Sigurðsson þurfti að útskýra aðeins mótórhjólasögu Snorra Steins Guðjónssonar eftir kveðju frá Snorra í Seinni bylgjunni og Guðjón sagði líka frá því af hverju hann skuldaði Snorra afsökunarbeiðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×