Öll viðskipti á bandarískum mörkuðum voru stöðvuð sjálfkrafa í fimmtán mínútur aðeins fimn mínútunum eftir að þeir opnuðu í morgun. Þá höfðu vísitölur lækkað hratt líkt og gerði í Asíu og Evrópu vegna hrapandi olíuverðs og ótta við áhrif kórónuveirunnar í nótt og í morgun.
S&P 500-vísitalan lækkaði um sjö prósentustig aðeins fimm mínútum eftir opnun markaða í Bandaríkjunum í morgun. Við þær aðstæður eru viðskipti sjálfkrafa stöðvuð í fimmtán mínútur. Þetta er í fyrsta skipti frá því í fjármálahruninu í desember árið 2008 sem slíkt gerist. Dow Jones-iðnaðarvísitalan féll jafnframt um meira en 1.900 stig.
Viðskipti gætu aftur stöðvast tímabundið haldi lækkunin áfram og nái þrettán prósentustigum í dag. Nái lækkunin tuttugu prósentustigum verður kauphöllum lokað í dag. Það hefur aldrei gerst frá því að reglurnar voru settar, að sögn Bloomberg-fréttastofunnar.
Sjá einnig: Bölmóður á mörkuðum eftir verðfall á olíu
Evrópskar og asískar vísitölur lækkuðu um 7-8% við opnun markaða þar í nótt og morgun. Það var viðbragð markaða við verðhruni á olíu. Verðið lækkaði um hátt í 30% í nótt þegar Sádar hófu verðstríð til að þvinga Rússa til að taka þátt í aðgerðum OPEC, samtaka olíuútflutningsríkja, um að halda uppi verði á olíu þrátt fyrir minnkandi eftirspurn vegna kórónuveirunnar.