Erlent

Segir að „sjúklega offeitur“ Trump ætti ekki að taka inn malaríulyfið

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, eru miklir andstæðingar í stjórnmálum.
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Donald Trump, Bandaríkjaforseti, eru miklir andstæðingar í stjórnmálum. Getty/Samsett

Nancy Pelosi, demókrati og forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, kveðst hafa áhyggjur af Donald Trump Bandaríkjaforseta eftir að hann sagðist taka inn malaríulyf gegn kórónuveirunni. Pelosi telur að Trump ætti ekki að taka lyfið inn, einkum í ljósi aldurs og holdafars.

Trump greindi frá því á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í gær að hann hefði undanfarna eina og hálfa viku tekið inn malaríulyfið Hydroxychloroquine til varnar veirunni. Forsetanum hefur verið tíðrætt um notagildi lyfsins í baráttunni við faraldurinn, þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Ekki hefur tekist að sýna fram á neina virkni lyfsins gegn Covid-19, sjúkdómnum sem veiran veldur.

Ríkisstjórn Trumps hefur jafnframt sjálf gefið út að lyfið skuli aðeins nota á sjúkrahúsum í nánu samráði við lækna eða í rannsóknarskyni, þar sem aukaverkanir þess geti verið banvænar.

Pelosi, sem er einn helsti andstæðingur Trumps á sviði bandarískra stjórnmála, var innt eftir viðbrögðum við frásögn forsetans í viðtali á fréttastofunni CNN í gærkvöldi. Og það stóð ekki á svari.

„Hann er forseti okkar og ég vil síður að hann taki eitthvað inn sem hefur ekki fengið vilyrði vísindamanna, sérstaklega í aldursflokki hans og í, skulum við segja, þyngdarflokki… sjúklega offeitur (e. morbidly obese), segja þeir,“ sagði Pelosi. Hluta úr viðtalinu má sjá hér að neðan.

Trump er 73 ára og gekkst síðast undir allsherjarlæknisskoðun í febrúar 2019, samkvæmt opinberum gögnum. Þar mældist BMI-stuðull forsetans 30,4 og hann því í ofþyngd (e. obese). Trump flokkast þannig ekki sem „sjúklega offeitur“ (e. morbidly obese), líkt og fram kom í máli Pelosi, en það gera aðeins þeir sem mælast með BMI-stuðul yfir 40.

Trump hefur verið gagnrýndur talsvert eftir að hann viðurkenndi inntöku malaríulyfsins. Guardian hefur eftir tveimur læknum í frétt sinni um málið að þeir hefðu áhyggjur af því að fólk fylgdi fordæmi Trumps og byrjaði að taka lyfið inn. Þá lögðu þeir áhersla á að engar sönnur hefðu verið færðar á virkni lyfsins og að niðurstöður rannsókna til þessa „lofuðu ekki góðu“.


Tengdar fréttir

Trump setur WHO afarkosti

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað því að Bandaríkin hætti fjárframlögum til Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um ókomna tíð vegna viðbragða stofnunarinnar við faraldri kórónuveiru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×