Fótbolti

Kante æfði ekki með Chelsea í dag af ótta við veiruna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kante í leik með Chelsea.
Kante í leik með Chelsea. vísir/getty

Það var enginn N’Golo Kante sjáanlegur á æfingu Chelsea í dag og Matt Law, blaðamaður á The Telegraph, segir að það eigi sér eðlilega skýringu. Hann hafi fengið frí frá æfingu dagsins og og óvíst hvenær hann æfir aftur með liðinu.

Franski heimsmeistarinn var mættur á æfingu Chelsea í gær er félagið byrjaði að æfa á ný eftir langa pásu vegna kórónuveirunnar en hann æfði ekki með liðinu í dag af ótta við faraldurinn sem enn geysar um heiminn.

Kante fór eins og allir leikmenn og starfslið félaganna í ensku úrvalsdeildinni í próf vegna veirunnar og það kom neikvætt út. Kante treysti sér þó ekki til þess að æfa í dag og í grein Telegraph segir að Frank Lampard, stjóri Chelsea, hafi sýnt því fullan skilning.

Kante er ekki eini leikmaðurinn sem hefur viðrað áhyggjur sínar um að byrja að æfa aftur á meðan faraldurinn er enn til staðar en Troy Deeney, fyrirliði Watford, ætlar ekki að mæta til æfinga enda með nýfætt barn heima fyrir sem hefur verið í öndunarerfiðleikum.

Ensku úrvalsdeildarliðin eru byrjuð að æfa í litlum hópum en forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar vonast til þess að hefja keppni á nýjan leik um miðjan júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×