Erlent

„Þau voru ekki bara nöfn á lista“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá Mt. Judah-kirkjugarðinum í New York.
Frá Mt. Judah-kirkjugarðinum í New York. EPA/Justin Lane

Forsíða bandaríska blaðsins New York Times er með heldur öðru sniði í dag en vanalega. Í stað efnis sem vanalegt er að birtist á forsíðunni, til að mynda fréttaljósmyndir, fréttir og tilvísanir í efni blaðsins er aðeins að finna lista yfir lítinn hluta þeirra Bandaríkjamanna sem týnt hafa lífinu af völdum Covid-19 sjúkdómsins.

Yfirskrift blaðsins er „Dauðsföll í Bandaríkjunum nálgast hundrað þúsund, ómælanlegur missir.“ Þar fyrir neðan stendur „Þau voru ekki bara nöfn á lista. Þau voru við.“

Með nöfnunum birtir blaðið síðan upplýsingar um aldur og búsetustað viðkomandi. Að sögn stjórnenda blaðsins var ákveðið að hafa forsíðuna með þessu sniði til þess að draga fram feiknastærð og margbreytni faraldursins, en með sumum nafnanna fylgja lýsingar á hinum látnu, sem fengnar voru úr dánartilkynningum eða minningargreinum.

Rúmlega 98 þúsund hafa látist af völdum Covid-19 í Bandaríkjunum. Þannig eru þau þúsund nöfn sem blaðið birtir á forsíðu sinni rúmlega eitt prósent þeirra sem týnt hafa lífi sínu í faraldrinum. Ekki í nokkru ríki heims hafa fleiri látið lífið vegna sjúkdómsins.

Hér má nálgast forsíðuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×