Enski boltinn

Ancelotti: Guardiola er snillingur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tveir af sigursælustu stjórum aldarinnar.
Tveir af sigursælustu stjórum aldarinnar. vísir/getty

Það verða tvær kanónur á hliðarlínunni á Etihad leikvangnum í Manchester í dag þegar Everton heimsækir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni. 

Carlo Ancelotti tók nýverið við stjórnartaumunum hjá Everton og mætir lærisveinum Pep Guardiola í dag. Þarna fara tveir sigursælustu knattspyrnustjórar þessarar aldar í evrópskri knattspyrnu.

Ancelotti tók við Bayern Munchen af Guardiola þegar sá síðarnefndi færði sig um set til Englands og segir Ancelotti að á milli þeirra ríki mikil virðing.

„Pep er stórkostlegur knattspyrnustjóri. Ég á í góðu sambandi við hann. Það er gagnkvæm virðing á milli okkar. Á ákveðnum sviðum er hann snillingur. Hann er alltaf að reyna að gera eitthvað sérstakt með sín lið,“ segir Ancelotti.

Everton hefur unnið báða leiki sína síðan Ancelotti tók við, gegn Newcastle og Burnley en Ítalinn þrautreyndi gerir sér grein fyrir krefjandi verkefni dagsins.

„Að spila við Manchester City er frábært próf fyrir okkur til að sjá hvar við stöndum. Þetta er mjög sterkt lið en við erum fullir sjálfstrausts og erum á góðri siglingu. Við eigum að vera ánægðir með að fá að keppa við bestu lið Englands og eitt besta lið Evrópu,“ segir Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×