Enski boltinn

Moyes: Ég er einn af toppþjálfurunum í ensku úrvalsdeildinni

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Moyes er mættur aftur í ensku úrvalsdeildina
Moyes er mættur aftur í ensku úrvalsdeildina vísir/getty

Skotinn síkáti, David Moyes, sneri aftur í enska boltann á dögunum þegar hann var ráðinn knattspyrnustjóri West Ham eftir að Manuel Pellegrini var látinn taka pokann sinn.

Moyes mun stýra sínum fyrsta leik í dag þegar liðið fær Bournemouth í heimsókn en Moyes er að snúa aftur til West Ham þar sem hann stýrði liðinu frá nóvember 2017 til maí 2018 en í kjölfarið fékk hann ekki áframhaldandi samning og Pellegrini var ráðinn.

Moyes hefur einnig þjálfað Everton, Man Utd og Sunderland í ensku úrvalsdeildinni og er einn reynslumesti stjórinn frá stofnun úrvalsdeildarinnar.

„Þeir eru að fá mjög reynslumikinn úrvalsdeildarþjálfara. Ég hef alltaf litið á mig sem einn af toppþjálfurunum í þessari deild,“ segir Moyes.

„Ég held að það séu aðeins tveir eða þrír stjórar með betra sigurhlutfall í ensku úrvalsdeildinni en ég. Þetta er það sem ég geri. Ég vinn leiki. Ég er kominn hingað til að ná í sigra fyrir West Ham og koma þeim frá fallsvæðinu,“ segir Moyes, greinilega stútfullur af sjálfstrausti.

Það er rétt hjá Skotanum að af þeim fimm stjórum sem hafa stýrt yfir 500 leikjum í ensku úrvalsdeildinni er hann með þriðja besta sigurhlutfallið þar sem hann er með betra hlutfall en Harry Redknapp og Sam Allardyce. Sir Alex Ferguson trónir á toppnum og Arsene Wenger er skammt undan.

Töluvert fleiri stjórar hafa stýrt 300 leikjum eða meira og ef sá listi er skoðaður er Moyes í 5.sæti af þeim 16 þjálfurum sem hafa stýrt yfir 300 leikjum frá stofnun úrvalsdeildarinnar 1992. Á þeim lista skýtur Jose Mourinho sér upp í 2.sæti á milli Ferguson og Wenger en Rafa Benitez er fjórði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×