Isavia mun fella tímabundið niður notendagjöld á Keflavíkurflugvelli, að því er fram kemur í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Niðurfelling gjaldanna varir á meðan ferðabann Bandaríkjaforseta er í gildi, sem komið var á vegna kórónuveirunnar.
Sjá einnig: Katrín Óskar eftir símafundi með Trump
Í tilkynningu segir að með þessu styðji Isavia við viðskiptavini sína á fordæmalausum óvissutímum með það að markmiði að auðvelda flugfélögum að taka ákvarðanir um áframhaldandi flug til Íslands þrátt fyrir lakari sætanýtingu. Undir notendagjöld á Keflavíkurflugvelli falla m.a. lendingargjöld, farþegagjöld, stæðisgjöld og flugleiðsögugjöld og flugverndargjöld.
Þessi ákvörðun Isavia mun gilda á meðan núverandi ferðabann borgara innan Schengen-svæðisins til Bandaríkjanna varir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fagnar þessari ákvörðun, að því er haft er eftir henni í tilkynningu.
„Með ákvörðun sinni leggur Isavia sitt lóð á vogarskálarnar með stjórnvöldum til að styðja við íslenska ferðaþjónustu á krefjandi tímum. Mikilvægt er að viðhalda öflugri flugstarfsemi sem er lykilþáttur í íslenskri ferðaþjónustu og efnahagslífi.“
Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í vikunni um ferðabann frá landa innan Schengen-svæðisins í Evrópu til Bandaríkjanna. Íslendingar mega vænta umtalsverðra efnahagslegra áhrifa af ferðabanninu en bandarískir ferðamenn hafa þannig verið stærsti hópurinn sem farið hefur um Keflavíkurflugvöll frá því árið 2016.