Reiknað er með að hægt verði að afgreiða allt að fimmtán flugvélar á dag til að byrja með á Keflavíkurflugvelli eftir opnun landamæranna. Flugfélög eru áhugasöm um flug hingað til lands en eru varkár í yfirlýsingum.
Icelandair er eina flugfélagið sem lýst hefur yfir að það muni hefja áætlunarflug í einhverri mynd um leið og landamærin verða opnuð hinn 15. júní. Guðmundur Daði Rúnarsson framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Ísavía segir að enn ríki mikil óvissa um hve margir farþegar muni koma til landsins. Nú sé gengið út frá að hægt verði að taka 500 til þúsund veirusýni á dag á flugvellinum.

„En ef við horfum til dæmis á síðasta ár þá vorum við með í kringum 160 farþega í hverri flugvél. Þannig að við erum að tala um á bilinu tíu til fimmtán flugvélar á dag,“ segir Guðmundur Daði.
Það er ekki stór dagur í venjulegu árferði á Keflavíkurflugvelli en vissulega betra ástand en verið hefur undanfarnar vikur.
„Tvö þúsund og átján á stærstu dögum ársins voru í kringum fjörtíu þúsund farþegar að koma um flugvöllinn. Þannig að jú, þetta er tiltölulega lítið miðað við hvernig umferðin var áður á flugvellinum,“ segir Guðmundur Daði.
Ísavía bíði enn eftir ítarlegri tillögum frá sóttvarnalækni í tengslum við ákvörðun yfirvalda til að hægt verði að útfæra eftirlitið á Keflavíkurflugvelli.
„En við erum í mjög nánu sambandi við flugfélögin. Erum að reyna að átta okkur á því hvenær geti farið að rofa til,“ segir Guðmundur Daði.
Engu að síður er ljóst að komur ferðamanna á þessu ári verða ekki svipur hjá sjón miðað við þær tvær milljónir ferðamanna sem komið hafa árlega til landsins undanfarin nokkur ár. En áætlanir gerðu ráð fyrir að 26 flugfélög flygju hingað í sumar.
„Við verðum vör við að það er áhugi á landinu og það er áhugi á ferðum. En hvort það leiði til þess að hér verði mikið af flugfélögum að fljúga á næstu mánuðum er ómögulegt að segja á þessum tímapunkti,“ segir Guðmundur Daði Rúnarsson.
Bandarísku flugfélögin American Airlines, Delta og United og kanadíska flugfélagið Air Canada hafa þegar tilkynnt að þau muni ekki fljúga til Íslands í sumar.