Fótbolti

Immobile slær Lewandowski, Sancho, Werner og meira að segja Messi við

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Immobile hefur verið frábær í liði Lazio á leiktíðinni.
Immobile hefur verið frábær í liði Lazio á leiktíðinni. EPA-EFE/ANGELO CARCONI

Hinn ítalski Ciro Immobile er af mörgum talinn einn besti framherji Evrópu en hann hefur komið að flestum mörkum í stærstu fimm knattspyrnudeildum Evrópu. Það eru enska, spænska, þýska, ítalska og franska deildin sem falla undir þá skilgreiningu.

Hinn þrítugi Immobile hefur komið að 34 mörkum á þessari leiktíð fyrir Lazio. Aðeins Robert Lewandowski hefur skorað meira af þeim fimm mönnum sem hafa komið að flestum mörkum. Lewandowski hefur hins vegar ekki lagt upp jafn mörg mörk og Immobile.

Immobile hefur skorað 27 mörk ásamt því að leggja upp sjö mörk.

Í öðru sæti listans er ungstirnið Jadon Sancho sem spilar með Borussia Dortmund í þýsku úrvalsdeildinni. Sancho hefur skorað sautján mörk á leiktíðinni ásamt því að leggja upp önnur sextán. Þar á eftir kemur Lewandowski með 29 mörk fyrir Bayern Munich en hann hefur „aðeins“ lagt upp þrjú mörk.

Eftir leik FC Köln og RB Leipzig í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld er Timo Werner, helsta skotmark Liverpool þessa dagana, kominn upp í fjórða sæti listans með 25 mörk og stjö stoðsendingar.

Í fimmta sæti er svo Argentínumaðurinn Lionel Messi en hann hefur skorað nítján mörk í liði Börsunga ásamt því að leggja upp tólf mörk.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×