Lögmaður gagnrýnir rannsókn lögreglu á meintum kynferðisbrotum gegn þriggja og sex ára systrum. Grunur leikur á að teknar hafi verið kynferðislegar myndir af stúlkunum en málið var látið niður falla eftir rúmlega ár í rannsókn. Rætt verður við lögmann fjölskyldunnar í kvöldfréttum Stöðvar 2 en fjölskyldan hefur kært málið til ríkissaksóknara.
Minningarathöfn um George Floyd, svartan Bandaríkjamann sem lögregluþjónn er sakaður um að hafa myrt í síðustu viku, stendur nú yfir í Minneapolis. Við segjum áfram fréttir frá mótmælum sem staðið hafa yfir í Bandaríkjunum og víðar um heim undanfarna daga.
Í fréttatímanum verður einnig rætt við prófessor í stjórnmálafræði um forsetakosningarnar í sumar. Í framhaldi af fréttatímanum sýnum við ítarlega umfjöllun um leiðina á Bessastaði í opinni dagskrá á Stöð 2.
Þá lítum við við í Norðurá í Borgarfirði í fréttatímanum en þar var fyrsti lax sumarsins dreginn á land í morgun.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis í opinni dagskrá klukkan 18:30.