Innlent

Handtóku ölvaðan mann grunaðan um íkveikju

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu um eld í bílskúr í Kópavogi klukkan 17:30 í gær. Ölvaður maður var handtekinn á vettvangi, grunaður um íkveikju. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.

Þá stöðvaði lögreglan í gærkvöldi tvær bifreiðar á Vesturlandsvegi við Keldur, með 13 mínútna millibili, klukkan 21:15 og 21:28, fyrir of hraðan akstur. Mældur hraði bifreiðanna var annars vegar 144 kílómetrar á klukkustund og hins vegar 137, en hámarkshraði á veginum er 80 kílómetra hraði. Báðir ökumenn viðurkenndu brot sín, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Skömmu fyrir klukkan eitt í nótt var bifreið stöðvuð í Garðabæ eftir eftirför. Ökumaðurinn, ung kona, er grunuð um akstur undir áhrifum og fór ekki eftir fyrirmælum lögreglu í samskiptum sínum við hana. Hún var vistuð í fangageymslum lögreglu.

Laust fyrir klukkan hálf þrjú í nótt stöðvaði lögreglan bifreið á Reykjanesbraut. Við nánari athugun reyndist ökumaður hennar vera 16 ára, og hafði því ekki öðlast ökuréttindi. Eins var ökumaðurinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í dagbók lögreglunnar segir að málið hafi verið afgreitt með aðkomu móður barnsins og tilkynningu til Barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×