Fótbolti

Lið Birkis Bjarna í mál við Balotelli og umboðsmann hans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Balotelli, sem bar fyrirliðaband Brescia fyrr á þessu ári, virðist ekki eiga framtíð hjá félaginu.
Balotelli, sem bar fyrirliðaband Brescia fyrr á þessu ári, virðist ekki eiga framtíð hjá félaginu. EPA-EFE/FILIPPO VENEZIA

Brescia, lið Birkis Bjarnasonar í ítölsku úrvalsdeildinni, ætlar að höfða mál gegn ítalska framherjanum Mario Balotelli og umboðsmanni hans Mino Raiola vegna lyga þess síðarnefnda.

Raiola ku hafa logið því að Brescia hafi hreinlega neitað að skima fyrir kórónuveirunni hjá Balotelli. Sagði hann í vikunni að félagið væri að mismuna leikmanninum þar sem allir aðrir leikmenn Brescia hefðu verið skimaðir.

Þá birti Balotelli færslu á Instagram-síðu sinni þar sem hann sagði slíkt hið sama og Raiola.

Félagið vísar þessum ásökunum á bug og segist ætla í mál við bæði leikmanninn sem og umboðsmann hans. Í yfirlýsingu Brescia segir að félagið hafi skipað lögfræðingum sínum að skoða málið og það muni taka hart á þessum fölsku ásökunum. 

Þá kemur einnig fram að Brescia hafi ráðið sérfræðing til að skima alla sem tengda eru félaginu og því eigi þessar ásakanir ekki við nein rök að styðjast.

Balotelli lenti upp á kant við forsvarsmenn Brescia í síðustu viku þegar hann var ekki með gilt læknisvottorð en allir leikmenn ítölsku úrvalsdeildarinnar þurfa að mæta með læknisvottorð á æfingar og í leiki.

Birkir ræddi Balotelli í viðtali við The Athletic nýlega þar sem hann fór yfir ferilinn, árangur Íslands og tímann hjá Aston Villa í ensku B-deildinni.

„Það vita allir að hann er létt klikkaður en hann er góður gaur, það hefur verið gaman að spila með honum,“ sagði Birkir um Balotelli en svo virðist sem þeir munu ekki spila meira saman í náinni framtíð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×