Hundur af tegundinni Siberian Husky réðst á smáhund í Laugardalnum á sjötta tímanum í gær. Eigandi smáhundsins var nýbúin að binda hann fyrir utan heimili sitt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu, en náði að losa hann úr kjafti Husky-hundsins. Hún meiddist við það á höndum.
Konan fór á slysadeild til aðhlynningar og farið var með smáhundinn, sem lifði árásina af, til dýralæknis. „Eigandi Husky-hundsins var með tvo slíka á göngu er þetta gerðist og eru báðir hundarnir óskráðir og ótryggðir,“ segir í dagbók lögreglu.
Nú er til rannsóknar mál Husky-hunds sem beit konu í andlit þannig að hún hlaut af alvarlega áverka af um síðustu mánaðamót. Hundaeftirlitsmaður hjá Reykjavíkurborg sagði í samtali við Mbl í byrjun vikunnar að það væri nánast óþekkt að Husky-hundar bíti mannfólk.