Grænlendingar hafa opnað land sitt gagnvart Íslendingum og eru Íslendingar núna eina þjóðin utan danska ríkjasambandsins sem leyfist að heimsækja Grænland, án strangra skilyrða. Og Íslendingar þurfa ekki að fara í tveggja vikna sóttkví, eins og Danir neyðast til. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.
Það var við hæfi að grænlensk stjórnvöld kynntu breyttar reglur á þjóðhátíðardegi Íslendinga, 17. júní. Nýjar tilslakanir um það hverjir mega núna ferðast til Grænlands snúa nefnilega eingöngu að Íslendingum.
Áður var aðeins íbúum danska ríkjasambandsins, Dönum, Færeyingum og auðvitað Grænlendingum sjálfum leyft að koma til landsins, án strangra skilyrða, en núna er búið að bæta Íslendingum í hópinn.
Og það sem meira er: Íslendingar njóta núna meiri forréttinda heldur en Danir því þeir sem koma til Grænlands frá Kaupmannahöfn verða að fara í tveggja vikna heimasóttkví eða láta skima fyrir veirunni innan fimm daga. Íslendingar, sem koma beint frá Íslandi, sem og Færeyingar, þurfa enga sóttkví og leyfist að fara beint á kaffihús og í verslanir á Grænlandi, að því er grænlenska fréttastöðin KNR greindi frá.
Allt flug Air Iceland Connect til Grænlands hefur legið niðri frá því kórónufaraldurinn blossaði upp. Félagið tilkynnti þann 15. júní að það myndi hefja flug til Nuuk einu sinni í viku í júlí á föstudögum. Engar ákvarðanir liggja fyrir um flug til annarra áfangastaða félagsins á Grænlandi.
„Við fylgjumst vel með stöðunni og erum stöðugt að yfirfara áætlanir okkar miðað við nýjar forsendur og munum bregðast við í samræmi við það. En eins og staðan er núna teljum við ekki raunhæft að setja upp meira flug en þetta í júlí til Grænlands,“ segir Þóra Eggertsdóttir, forstöðumaður innanlandsflugs Icelandair.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: