Enski boltinn

Pogba vill ólmur bæta upp fyrir tímann án fótbolta

Sindri Sverrisson skrifar
Paul Pogba heilsar upp á landa sinn Moussa Sissoko eftir jafntefli Man. Utd og Tottenham í gær. Allir leikmenn báru áletrunina Black Lives Matter aftan á treyjum sínum til stuðnings þeirri réttindabaráttu.
Paul Pogba heilsar upp á landa sinn Moussa Sissoko eftir jafntefli Man. Utd og Tottenham í gær. Allir leikmenn báru áletrunina Black Lives Matter aftan á treyjum sínum til stuðnings þeirri réttindabaráttu. VÍSIR/GETTY

Franski miðjumaðurinn Paul Pogba átti góða innkomu inn í lið Manchester United í gær þegar hann lék sinn fyrsta leik síðan um jólin.

Pogba kom inn á sem varamaður og nældi í vítaspyrnu í 1-1 jafntefli United við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Hann kom inn á sem varamaður í tveimur leikjum um jólin en hefur annars ekki spilað fyrir United síðan í desember, vegna meiðsla.

„Pogba er stórkostlegur leikmaður og loksins orðinn heill heilsu,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, stjóri United, við BBC.

Sautján af átján sendingum Pogba í leiknum í gær heppnuðust, hann vann boltann fjórum sinnum af Tottenham-mönnum og sólaði framhjá þeim í bæði skiptin sem hann reyndi það.

„Það er frábært að sjá hann aftur sýna hæfileikana sína og hann lagði mikið af mörkum með því að ná í vítaspyrnuna. Hann hefur átt skelfilegt meiðslatímabil og er staðráðinn í að bæta upp fyrir tímann án fótbolta. Paul hefur alltaf viljað spila. Hann elskar fótbolta,“ sagði Solskjær.

Vill byggja ofan á samstarf Pogba og Fernandes

„Það hefur verið frábært að fá hann aftur til æfinga hjá okkur. Hvort sem er innan eða utan vallar þá er hann svo ákafur og ástríðufullur strákur. Það sjá svo allir hæfileikana sem hann hefur. Paul vill alltaf vera að sanna sig fyrir sjálfum sér og okkur. Hann krefst mikils af sjálfum sér og vill vera sá besti. Hann leggur hart að sér við æfingar og elskar fótbolta,“ sagði Solskjær.

Pogba og Bruno Fernandes léku í fyrsta sinn saman í gær, en Fernandes kom til United frá Sporting Lissabon í janúar. „Þetta er samstarf sem við viljum svo sannarlega byggja á. Þeir hafa æft saman og núna hafa þeir náð hálftíma saman inni á vellinum. Við viljum auðvitað hafa okkar bestu menn inni á vellinum og hafa gott jafnvægi í liðinu,“ sagði Solskjær.


Tengdar fréttir

Fernandes: Ekki víti fyrst að VAR segir það

„Við stóðum okkur mjög vel. Þetta var erfiður leikur,“ sagði Bruno Fernandes sem skoraði úr víti fyrir Manchester United í 1-1 jafnteflinu við Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×