Jón Dagur Þorsteinsson var algjörlega allt í öllu í seinni stórleik dagsins í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta þegar hann og félagar hans í AGF heimsóttu topplið Midtjylland.
Jón Dagur kom AGF í forystu á 28.mínútu en fyrrum leikmaður Stjörnunnar, Alexander Scholz, svaraði af bragði fyrir heimamenn eftir hálftíma leik.
Midtjylland eru langefstir í dönsku úrvalsdeildinni og héldu eflaust margir að úrslitin væru ráðin þegar þeir komust í 3-1 með tveimur mörkum á fyrstu þremur mínútum síðari hálfleiks.
Staðan hélst þannig allt þar til að Jón Dagur tók leikinn algjörlega í sínar hendur síðasta stundarfjórðunginn. Á 77.mínútu skoraði hann sitt annað mark og sex mínútum síðar fullkomnaði hann þrennu sína og jafnaði þar með metin.
Jón var ekki hættur því hann lagði upp sigurmark Nicklas Helenius á lokamínútu venjulegs leiktíma. Lokatölur 3-4 fyrir AGF.
Mikael Neville Anderson var ekki í leikmannahópi Midtjylland.